ÍR mun tefla fram meistaraflokki kvenna í 1. deild á næsta ári eftir nokkra ára fjarveru. Félagið sem hefur leikið í efstu deild karla í fjölmörg ár hefur nú loksins ákveðið að senda meistaraflokk til keppni. Liðið hefur 11. sinnum orðið Íslandsmeistari í efstu deild kvenna og því sögufrægt félag.
Ólafur Jónas Sigurðsson mun þjálfa liðið í vetur en hann lék í langan tíma með meistaraflokki ÍR og þekkir því vel til. Hann mun taka þátt í að byggja liðið upp og stýra því í 1. deild kvenna. Fyrr í kvöld skrifuðu 12 leikmenn undir að spila með liðinu á komandi tímabili en frekar verður fjallað um undirskriftirnar á Karfan.is á morgun.
Ein af þessum leikmönnum sem mun leika með ÍR á næsta tímabili er Hanna Þráinsdóttir en hún kemur frá Skallagrím. Hanna er tvítugur framherji sem er uppalin hjá Haukum. Hún hefur leikið með Skallagrím síðustu tvo tímabil, það fyrra var hún á venslasamning frá Haukum og lék 16 leiki í 1.deild. Á því tímabili var hún með fimm stig og fimm fráköst að meðaltali í leik og ákvað svo að semja aftur við Skallagrím fyrir síðasta tímabil. Þar glímdi hún við erfið meiðsli og náði ekki að leika með liðinu. Hanna á að baki leiki með yngri landsliðum Íslands og er mikill styrkur fyrir ÍRinga sem eru nýliðar í 1. deild kvenna.
Nánar um undirskriftirnar í Breiðholti á morgun auk viðtals við Ólaf Jónas þjálfara ÍR.