spot_img
HomeFréttirHamarsvörnin pakkaði Njarðvík saman (Umfjöllun)

Hamarsvörnin pakkaði Njarðvík saman (Umfjöllun)

Hamar leiðir undanúrslitaeinvígið gegn Njarðvík 2-1 eftir 83-47 stórsigur í Hveragerði í kvöld. Strax í öðrum leikhluta stungu heimakonur af og litu aldrei um öxl. Liðin mætast í fjórða sinn á laugardag í Njarðvík þar sem Hvergerðingar geta tryggt sér sæti í úrslitum deildarinnar. Þær Fanney Lind Guðmundsdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir áttu góðan dag í liði Hamars en heilt á litið stigu Hvergerðingar afar fá ef nokkur feilspor í leiknum og liðsvörnin frábær sem hélt gestunum í sínu lægsta stigaskori þetta tímabilið.
Upphafsmínúturnar lofuðu góðu í Blómabænum, liðin skiptust á að skora og fínn hraði í leiknum. Slavica Dimovska hélt Shaylu Fields í skefjum allan fyrsta leikhluta en Julia Demirer og Dita Liepkalne bitu frá sér í Njarðvíkurliðinu uns röðin var komin að Fanney Lind Guðmudnsdóttur. Hamar jafnaði metin í 13-13 og leiddu svo 16-14 eftir fyrsta leikhluta þar sem Fanney setti niður dreifbýlisþrist þegar um fjórar sekúndur voru eftir af fyrsta leikhluta.
 
Fanney hélt áfram að derra sig í öðrum leikhluta og skoraði sjö stig í röð á Njarðvíkinga sem fengu laglega yfirhalningu í öðrum leikhluta. Hamar vann annan leikhluta 23-4! Staðan í hálfleik 39-18 deildarmeisturunum í vil sem léku óaðfinnanlega vörn á meðan grænir gestirnir vissu vart hvaðan á þá stóð veðrið.
 
Fanney Lind og Guðbjörg Sverrisdóttir fóru fyrir Hamri í sókninni en varnarlega voru Hamars konur allar afar þéttar. Sem dæmi um atganginn í öðrum leikhluta þá gerðu Njarðvíkingar sín fyrstu stig í leikhlutanum eftir sex og hálfa mínútu og fengu blauta tusku strax til baka í andlitið þegar Fanney lét þrist vaða yfir hausamótunum á þeim.
 
Fanney var með 12 stig hjá Hamri í hálfleik og Guðbjörg 10 en hjá Njarðvíkingum var Dita Liepkalne með 6 stig og 5 fráköst. Þess má geta að hin öfluga Jaleesa Butler skoraði ekki stig fyrir Hamar í fyrri hálfleik og var snemma lent í villuvandræðum í öðrum leikhluta þegar hún fékk sína þriðju villu.

 
Njarðvíkingar voru ferskari í upphafi síðari hálfleiks en undir lok þess fyrri, enda vart annað hægt. Hamar hafði þó undirtökin og Kristrún Sigurjónsdóttir tók nokkrar fínar rispur fyrir heimakonur sem gáfu ekkert eftir þó Njarðvíkingar væru að bíta frá sér.
 
Varnarleikur gestanna var enn götóttur og Hamarskonur þræddu Njarðvíkurvörnina nánast að vild, unnu leikhlutann 25-17 og staðan því 64-35 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og aldrei spurning hvoru megin sigurinn lenti heldur aðeins hversu stór sigurinn yrði. Lokatölur reyndust svo 83-47 Hamri í vil og minnsta skor Njarðvíkinga þetta tímabilið jafnað en grænar gerðu einnig aðeins 47 stig í tapleik gegn Haukum fyrr á leiktíðinni.
 
Heildarskor:
 
Hamar: Fanney Lind Guðmundsdóttir 16, Guðbjörg Sverrisdóttir 16/3 varin skot, Kristrún Sigurjónsdóttir 15, Slavica Dimovska 7/10 stoðsendingar, Jenný Harðardóttir 7/4 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir 7, Jaleesa Butler 6/12 fráköst/5 stoðsendingar, Þórunn Bjarnadóttir 4/7 fráköst, Regína Ösp Guðmundsdóttir 3, Kristrún Rut Antonsdóttir 2, Bylgja Sif Jónsdóttir 0, Adda María Óttarsdóttir 0.
 
Njarðvík : Julia Demirer 12/13 fráköst, Dita Liepkalne 11/12 fráköst, Shayla Fields 10/4 fráköst, Ólöf Helga Pálsdóttir 4, Auður R. Jónsdóttir 3, Sara Dögg Margeirsdóttir 3, Árnína Lena Rúnarsdóttir 2, Emelía Ósk Grétarsdóttir 2, Ína María Einarsdóttir 0, Eyrún Líf Sigurðardóttir 0, Erna Hákonardóttir 0, Anna María Ævarsdóttir 0.
 
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Kr. Hreiðarsson
 
Byrjunarliðin:
 
Hamar: Slavica Dimovska, Íris Ásgeirsdóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir, Fanney Guðmundsdóttir
og Jaleesa Butler.
 
Njarðvík: Shayla Fields, Ólöf Helga Pálsdóttir, Ína Einarsdóttir, Dita Liepkalne og Julia Demirer.
 
Áhorfendur: 342
 
Staðan í einvíginu: Hamar 2-1 Njarðvík (Fjórði leikur liðanna í Njarðvík á laugardag)
 
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski [email protected]
 
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson[email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -