Hamar tók á móti Grindavík í Hveragerði í gær, þegar leikið var í IcelandExpress deild kvenna. Hamar hefur ekki gengið sem skyldi í síðustu leikjum og voru með 3 tapleiki í röð á bakinu fyrir þennan leik.
Leikurinn hófst frekar undarlega en liðin náðu ekki að koma boltanum í körfuna og skiptust í staðin á því að missa hann. Fyrsta stigið leit ekki dagsins ljós fyrr en eftir tæpar 3 mínútur, en það var Julia Demirer sem setti fyrstu stigin af vítalínunni.
Athygli vakti að Koren Schram var ekki í byrjunarliði Hamars og það sem meira var að hún var ekki á bekknum og enginn hafði hugmynd um hvar hún væri, ekki einu sinni liðsfélagarnir eða þjálfarinn.
Leikurinn var jafn og spennandi framanaf en eftir fyrsta leikhluta voru það gestirnir úr Grindavík sem leiddu með 2 stigum gegn 17-15.
Sama spennan var viðloðandi framanaf 2. leikhluta en Hvergerðingarnir náðu að skríða framúr um það leiti sem Koren Schram ákvað að heiðra liðið með nærveru sinni og tyllti sér á bekkinn. Hamar leiddi með 7 stigum í hálfleik 37-30.
Hamar lét forystuna aldrei af hendi eftir þetta og var munurinn yfirleitt í kringum 10 stig. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 56-45.
Grindavíkurstúlkur áttu fá svör og innbyrgðu heimastúlkur 19 stiga sigur að lokum 81-62.
Atkvæðamest í liði Hamars var Kristrún Sigurjónsdóttir sem var nokkuð heit á þriggja stiga línunni. Hún var með 22 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar. Næst á eftir henni kom Julia Demirer með sína vanalegu tvennu, en hún setti 16 stig og tók 12 fráköst. Sigrún Ámunda var svo með 11 stig og Koren Schram með 9.
Hjá Grindavík var það Michele DeVault sem var atkvæðamest með 17 stig og 10 fráköst. Jovana Stefánsdóttir var með 15 stig og Joanna Skiba 10 stig og 5 stoðsendingar. Petrúnella Skúladóttir setti 8 stig og tók 9 fráköst.
Ljósmynd/Tomasz Kolodziejski: Mynd úr safni
Texti: Jakob F. Hansen



