Hamar og Njarðvík áttust við í 6. umferð Iceland Express deildar kvenna í Hveragerði í kvöld. Fyrir leikinn voru Hamarsstúlkur ósigraðar, á toppi deildarinnar, ásamt Keflavík. Njarðvíkurstúlkur hafa hinsvegar komið svolítið á óvart og voru í 3. sæti fyrir leikinn.
Það byrjaði ekki gæfulega hjá Njarðvík því að þegar 52 sekúndur voru liðnar af leiknum þurfti Dita Liepkalne að fara af leikvelli eftir að Jaleesa Butler, leikmaður Hamars, braut á henni í hraðaupphlaupi en svo virtist sem að Dita hafi snúið sig á ökkla.
Fyrsti leikhluti spilaðist nokkuð jafnt framanaf, eða þar til í stöðunni 11:10 þegar Hamar gerði 9 stig í röð og breytti stöðunni í 20-10. Staðan að loknum 1. fjórðung var 22-13, Hamri í vil. Kristrún Sigurjónsdóttir var komin með 10 stig gaf tóninn fyrir það sem koma skildi.
Hamarsstúlkur héldu áfram þaðan sem frá var horfið en náðu hinsvegar aldrei að stinga Njarðvíkingana almennilega af. Njarðvík náði að halda sér inni í leiknum en það voru 10 stig sem skildu liðin að í hálfleik, staðan 39-29.
Tölfræði í hálfleik
Kristrún lokaði fyrrihálfleiknum með þriggja stiga körfu og var komin með 15 stig. Jaleesa Butler var komin með tvennu, 10 stig og 12 fráköst, og helmingurinn af leiknum ennþá eftir. Fanney var með 7 stig og Guðbjörg 2.
Hjá Njarðvík var Shayla Fields með 12 stig og 8 fráköst, Ólöf Helga og Heiða með 6 stig hvor, Anna María og Ína María með 2 stig og Eyrún Líf með 1.
3. leikhluti einkenndist af þónokkuð mörgum mistökum hjá báðum liðum. Hamarsstúlkur töpuðu boltum og klúðruðu opnum skotum á meðan að gestirnir gáfu lélegar sendingar beint á andstæðingana. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 54-39.
Leikurinn spilaðist áfram mjög svipað í lokaleikhlutanum. Butler var sterk undir körfunni hjá Hamri en Shayla Fields setti nokkra þrista þegar Hamarsstúlkur gleymdu sér og komu ekki á móti henni. Hamar fór með sigur af hólmi, 72-58.
Það var Kristrún Sigurjónsdóttir sem var atkvæðamest í kvöld með 34 stig (6 þrista) og 8 fráköst. Á eftir henni var það Jaleesa Butler sem setti 12 stig og tók 20 fráköst. Fanney Lind gerði 13 stig og 8 fráköst en lítið fór fyrir Salvicu sem setti einungis 5 stig en átti þrátt fyrir það 10 stoðsendingar og 4 fráköst. Íris Ásgeirsdóttir var með 5 stig, Guðbjörg Sverrisdóttir 2 stig og 4 fráköst og Kristrún Rut Antonsdóttir setti 1 víti í lokin.
Hjá Njarðvík var það Shayla Fields sem var atkvæðamest með 30 stig og 14 fráköst. Heiða Valdimarsdóttir gerði 9 stig og tók 8 fráköst. Ólöf Helga setti 6 stig og tók 8 fráköst, Anna María gerði 4 stig sem og Erna Hákonardóttir. Emelía Ósk og Ína María gerðu 2 stig hvor og Eyrún Líf Sigurðardóttir gerði 1 stig.
Pistill: Jakob F. Hansen
Ljósmynd/ Úr safni: Hamarskonur á góðri stund



