spot_img
HomeFréttirHamarsstelpur komnar í úrslitaeinvígið gegn KR

Hamarsstelpur komnar í úrslitaeinvígið gegn KR

 
Áhorfendabekkirnir voru þétt skipaðir í blómabænum í kvöld og stemningin á pöllunum til fyrirmyndar frá upphafi leiksins og allt til loka þegar Hamar og Keflavík mættust í oddaleik liðanna í undaúrslitum Iceland Express deildar kvenna. 
Birna Valgarðs kom gestunum yfir 0-2 en Hamarsstelpur hófu þá leikinn af miklum krafti og mátti halda að þær væru að halda áfram leiknum frá því á sunndaginn þar sem stemningin var þeirra megin í upphafi og staðan var orðin 11-2 þegar þrjár og hálf mínúta var liðin af leiknum og var staðan 19-8 þegar tæplega 4 mínútur voru eftir af fyrsta fjórðungnum , en ekkert gekk hjá gestunum að stoppa Juliu Demirer sem var komin með 10 stig þegar hér var komið við sögu. Julia og Koren fengu þá smá hvíld hjá heimastúlkum en á meðan þær sátu á bekknum náðu gestirnir að laga stöðuna í 19-13. Gestirnir héldu síðan áfram þessu áhlaupi sínu undir dyggri forystu Birnu Valgarðs og munurinn kominn niður í 1 stig 19-18 meðan enn voru tæpar tvær mínútur eftir af fyrsta fjórðung, en Hamarskonur náðu að auka aftur forskotið í 5 stig með 4 stigum frá Juliu og staðan 23-18 þegar 2. Leikhluti hófst.
 
Hamarsstúlkur leiddu síðan fyrri hluta 2. leikhluta, en þó voru Keflvíkingarnir aldrei langt undan og komust yfir 35-36 þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður og við tók jafnasti kafli leiksins þar sem liðin skiptust á að hafa eins til tveggja stiga forskot út fyrri hálfleikinn og staðan 45-46 Keflvíkingum í vil þegar flautað var til hálfleiks, en Koren Schram átti síðasta skot fyrri hálfleiksins úr erfiðri stöðu fyrir utan þriggja stiga línuna, en það geigaði og því ljóst að Ágúst Björgvinsson þyrfti eitthvað að skerpa á áherslunum fyrir seinni hálfleikinn. Í hálfleik var Julia Demirer komin með 18 stig og 7 fráköst, en hjá Keflvíkingum var Birna atkvæðamest með 19 stig. Athyglisvert er að öllum körfum Hamarskvenna utan af velli í fyrri hálfeik fyrir utan þá fyrstu fylgdi stoðsending, en Hamarsliðið skoraði 15 körfur utan af velli í fyrri hálfleiknum og þeim fylgdu 14 stoðsendingar, en þar af gaf Kristrún Sigurjónsdóttir helming þeirra, eða 7 talsins.
 
Þriðji leikhlutinn spilaðist að nokkru leyti eins og fyrsti leikhlutinn en Hamarskonur komu grimmari til leiks og byrjuðu að byggja sér aftur upp forskot eins og í upphafi leiksins og munurinn orðinn 10 stig 64-54 þegar ein og hálf mínúta voru eftir af 3. leikhlutanum, en þá duttu gestirnir í gírinn og Svava setti niður stórann þrist og í næstu sókn var brotið á henni í þriggjastiga skoti og setti hún öll þrjú skotin niður og munurinn því kominn niður í 4 stig, 64-60 en Julia átti síðasta orðið í fjórðungnum með því að taka sóknarfrákast eftir lokaskotstilraun Guðbjargar og setja boltann ofaní rétt í þann mund sem leiktíminn rann út og staðan því 66-60 fyrir Hamar þegar fjórði leikhlutinn hófst.
 
Hamarsstelpur náðu síðan að halda gestunum í hæfilegri fjarlægð lungað úr lokaleikhlutanum en munurinn var kominn upp í 13 stig 86-73 þegar Svava Ósk tók smá einleik og skoraði sjö næstu stig leiksins og munurinn kominn aftur niður í sex stig og rúmlega mínúta eftir af leiknum. Eftir það færðist leikurinn yfir á vítalínuna, því Keflvíkingarnir pressuðu stíft og reyndu að stela boltanum, en fóru að týnast útaf með fimm villur, en Birna, Bryndís og Pálína fengu allar sína fimmtu villu á lokasprettinum. Þrátt fyrir að hamarsstelpur hittu aðeins úr tveimur af fimm síðustu vítaskotum sínum á síðustu hálfu mínútu leiksins, voru gestirnir að reyna of erfið skot sem gerði það að verkum að þær náðu ekki að minnka muninn. Kristi Smith átti síðasta skota Keflvíkinga á þessu leiktímabili þegar 10 sekúndur voru eftir af leiknum, en það geigaði og Guðbjörg Sverrisdóttir tók frákastið og skeiðaði síðan í sókn þar sem hún skoraði úr sniðskoti og nældi sér í villu að auki þegar rúmar 2 sekúndur voru eftir af klukkunni. Vítaskotið rataði ekki rétta leið, en Julia tók sóknarfrákastið og skilaði boltanum ofaní af harðfylgni um sama leyti og leikklukkan rann út, en þess má til gamans geta að hún skoraði líka flautukörfu í þriðja leikhluta og nældi sér í tvö vítaskot á sama tíma og fyrsti leikhluti rann út, sem hún skoraði úr, svo það mætti segja að hún hafi skorað flautukörfu í þremur af fjórum leikhlutum kvöldsins.
 
Hamarssigur var því staðreynd 93-81 í stórskemmtilegum leik og áhorfendur stóðu upp og fögnuðu stelpunum sínum innilega í lok leiks auk þess sem Ágúst Sigurður Björgvinsson fékk sinn skammt af stuðningssöngvum heimamanna sem þakklætisvott fyrir að koma liðinu í úrslit Íslandsmótsins í fyrsta skipti í sögu Körfuknattleiksdeildar Hamars.
 
Hjá Hamri var Julia Demirer annan leikinn í röð með 39 stig á heimavelli auk þess sem hún reif niður 18 fráköst, Koren Schram skoraði 19 stig, Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 14 stig og gaf 10 stoðsendingar og Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði 8 stig.
 
Hjá Keflavík var Birna Valgarðsdóttir atkvæðamest með 28 stig, 9 fráköst og 3 varin skot, Svava Ósk Stefánsdóttir skoraði 23 stig og tók 8 fráköst, Kristi Smith skoraði 11 stig og stal 5 boltum, en Bryndís Guðmundsdóttir var ekki að finna fjölina sína og skoraði aðeins 7 stig en gaf 5 stoðsendingar.
 
 
Umfjöllun: Sævar Logi Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -