spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaHamarssigur í fyrsta leik

Hamarssigur í fyrsta leik

Hamar og ÍR mættust í gærkvöldi í íþróttahúsinu í Hveragerði í fyrsta leik 1.deildar kvenna á þessu tímabili. Liðin voru jöfn framan af leik en Hamar tók að síga fram úr undir lok 1. leikhluta, sá leikhluti fór 15-9 fyrir Hamar. Hamar leiddi í hálfleik 32-25. ÍR byrjaði síðari hálfleik af krafti og náði að minnka muninn niður í 2 stig. Þær pressuðu stíft á Hamarskonur sem lentu í smá basli við að leysa pressuna. Hamar tók svo forystuna aftur en liðið var að spila góðan varnarleik í seinni hálfleik og voru Helga Sóley og Íris sérstaklega grimmar að stela boltum. Hamar var svo með nokkuð örugga forystu allan síðasta leikhlutann og endaði leikurinn 69-56 fyrir Hamri.

 

Það var sérstaklega gaman að sjá Írisi Ásgeirsdóttur aftur á parketinu en hún átti þrusu leik, var stigahæst í liðinu með 18 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Það var líka gaman að sjá þrjá unga leikmenn stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki en þær koma frá Hrunamönnum. Það eru þær Una Bóel Jónsdóttir, Margrét Thorsteinson og Perla María Kristjánsdóttir sem stóðu sig allar mjög vel. Perla María átti mjög flotta innkomu af bekknum, endaði leikinn með 13 stig og átti mikilvægar körfur í síðari hluta leiksins. Álfhildur Þorsteinsdóttir átti góðan leik undir körfunni og skoraði 11 stig og reif niður 18 fráköst. Helga Sóley Heiðarsdóttir var með 11 stig og 5 stolna bolta. Gígja Marín Þorsteinsdóttir skoraði 5 stig, Bjarney Sif Ægisdóttir 5 stig, Dagrún Inga Jónsdóttir 4 stig, Rannveig Reynisdóttir var með 2 stig og 6 fráköst. Góður sigur liðsheildar Hamars þar sem allir lögðu sitt af mörkum.

 

Hjá ÍR átti Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir góðan leik, var með 10 stig og 8 fráköst. Nína Jenný Kristjánsdóttir var öflug undir körfunni og setti 13 stig. Birna Eiríksdóttir setti 11 stig og Katla María Stefánsdóttir setti 9 stig.

 

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -