spot_img
HomeFréttirHamarinn frá Akron í úrslit í níunda skiptið á síðustu tíu...

Hamarinn frá Akron í úrslit í níunda skiptið á síðustu tíu árum – Los Angeles Lakers Vesturstrandarmeistarar

Los Angeles Lakers tryggðu sér í nótt Vesturstrandar titil NBA deildarinnar með 10 stiga sigri á Denver Nuggets, 117-107. Leikurinn sá fimmti í einvígi liðanna sem endaði 4-1 fyrir Lakers.

Lakers munu því halda til úrslita deildarinnar, þar sem þeir mæta annað hvort Miami Heat eða Boston Celtics. Heat eru þar einum sigurleik frá því að slá Celtics út, yfir 3-2, en næsti leikur liðanna er í kvöld kl. 11:30 að íslenskum tíma.

Leikur næturinnar var nokkuð jafn í upphafi. Lakers leiddu þó með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, 33-30. Undir lok fyrri hálfleiksins bættu þeir svo við þá forystu og voru 8 stigum yfir þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 59-51.

Leikmenn Nuggets komu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik. Unnu niður forystu Lakers í þriðja leikhlutanum. Í fjórða leikhlutanum náðu Lakers svo aftur að vera skrefinu á undan og sigla að lokum frekar öruggum 10 stiga sigri í höfn, 117-107.

Atkvæðamestur fyrir Lakers í leiknum var LeBron James með 38 stig, 15 fráköst og 10 fráköst. Fyrir Nuggets var það Jerami Grant sem dróg vagninn með 20 stigum og 9 fráköstum.

Mun þetta vera í níunda skiptið sem að LeBron fer í úrslitin á síðustu tíu árum, en í heildina hefur hann farið í tíu skipti frá því að hann kom inn í deildina. Þá mun þetta vera í 32. skiptið sem félagið fer í úrslitaeinvígið, en ekkert lið hefur farið jafn oft, Boston Celtics frekar langt fyrir neðan í öðru sætinu á þeim lista með 21 ferð.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -