spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHamar tekur forustuna í Suðurlandsslagnum

Hamar tekur forustuna í Suðurlandsslagnum

Hamar og Selfoss mættust í gærkvöldi í þriðja leik liðanna í undanúrslitum 1. deildar karla um laust sæti í efstu deild. Bæði lið höfðu unnið hvort sinn leikinn í einvíginu, en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrsliteinvígið. Hamar hafði undirtökin mest allan leikinn og fór að lokum með sigur af hólmi, 85-74.

Jafnræði var með liðunum framan af 1. leikhluta. Um miðjan leikhlutann skiptu Selfyssingar yfir í svæðisvörn, sem hefur reynst Hamarsmönnum oft á tíðum erfið, en í þetta sinn gekk Hamri ágætlega að finna leiðir í gegnum vörnina og náðu að byggja upp forustu. Staðan í lok leikhlutans var 29-21.

Verulega hægðist á báðum liðum í 2. leikhluta, en liðin voru komin með sitthvora körfuna þegar leikhlutinn var hálfnaður. Yfirbragð liðanna hresstist lítillega þegar leið á leikhlutann, en staðan í hálfleik var 43-37.

Selfoss  byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og náðu fljótt forustu, 45-48. Fór þar fremstur í flokki Arnór Bjarki, sem skoraði flottar þriggja stiga körfur ásamt því að koma með troðslu. Ragnar Jósef og Ragnar Magni settu þá tvo þrista fyrir Hamar með skömmu millibili sem komu Hamarsmönnum aftur á bragðið. Við tók þá meira jafnræði með liðunum út leikhlutann. Staðan við lok 3. leikhluta var 68-62. 

Hamarsmenn voru sterkir í upphafi 4. leikhluta og voru ljótt komnir með 10 stiga forustu, 74-64. Lítið var skorað næstu mínútur og var staðan 75-66, þegar tæpar fjórar mínútur lifðu leiks. Virtist þreyta verin farin að segja til sín hjá báðum liðum. Þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum náðu Selfyssingar fjögurra stiga sókn, með þriggja stiga körfu ásamt víti að auki og munurinn skyndilega kominn niður í 5 stig, 75-70. Í næstu sókn Hamars tróð Ruud Lutterman boltanum með miklum látum yfir tvo menn og fékk víti að auki. Virtist það slökkva neistann hjá Selfyssingum og náði leikurinn aldrei að verða spennandi eftir það. Leiknum lauk með sigri Hamars 85-74.

Næsti leikur liðanna er n.k. fimmtudagskvöld á Selfossi kl. 19:15. Með sigri þar tryggir Hamar sér sæti í úrslitaeinvíginu við Vestra. Selfyssingar geta með sigri tryggt oddaleik í einvíginu sem fer þá fram í Hveragerði n.k. sunnudag kl. 19:15.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Reynir Þór

Fréttir
- Auglýsing -