Fallnir Reynismenn fengu kaldar kveðjur í 2. deild frá Hamarsmönnum í gær. Hamar létu það ekki á sig fá að vera ekki að keppa að neinu og settu í fluggírinn í síðasta leik tímabilsins.
Reynismenn áttu fá svör í sókn sinni gegn vörn heimamanna sem skilaði ávallt auðveldum stigum á töfluna á hinum enda vallarins. Samuel Prescott fór hamförum í liði Hamars og var oftar en ekki fremstur fram og kláraði með öllum kúnstum svo sem troðslum, hollý húum og körfum góðum. Staðan eftir fyrsta leikhluta 30-15, og Samuel með 14 stig í liði Hamars, einu minna en allt Reynisliðið.
Í öðrum leikhluta fengu ungir og óreyndari menn að spila og komu þeir flott inní leikinn. Þeir reyndar féllu svolítið í skuggann á ótrúlegri frammistöðu Prescotts, sem bætti um betur frá fyrsta leikhluta og skoraði 16 í þeim öðrum og var með 30 stig í hálfleik takk fyrir. Tveimur stigum meira en allt Reynisliðið, staðan 58-28.
Síðari hálfleikur reyndist Reynismönnum erfiður því þeir misstu Hinrik Albertsson útaf, en hann var rekinn út úr húsi fyrir að ganga berserksgang inná vellinum. Ekki var þetta til að bæta dag gestanna, heldur var þetta vatn á myllu Hamarsliðsins sem hélt áfram að keyra á gestinna og uppskáru þeir 49 stiga forskot 92-43. Það er þó ekki hægt að sleppa því á það að minnast á loka körfu leikhlutans frá Samuel Prescott sem var skot þvert yfir völlinn, eða um það bil frá eigin vítalínu beint af spjaldinu og ofan í körfuna. Þarna ákvað Hallgrímur þjálfari Hamars að það væri komið gott af þessari sýningu og kippti Samuel af velli.
Ungu pungarnir fengu því loka fjórðunginn til að sýna hvers er að vænta á komandi árum og spiluðu þeir flottan leik. Fór svo að þeir fengu einungis 10 stig á sig, en skorðuð sjálfir 25 stig og þar með innsigluðu þeir einn af stærstu sigrum Hamars frá upphafi 120-53.
Stigahæstur var Samuel Prescott með 45 stig, 11 fráköst og 55 Framlagspunkta. Skytturnar Sigurður og Snorri skiluðu 15 og 14 stigum og næstur var Þorsteinn með 13 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Björn Ásgerir kom svo með 9 stig og 4 stoðsendingar. Hjá gestunum var Brynjar Þór stigahæðstur með 11 stig og Guðmundur og Eðvald voru með 9 hvor.



