spot_img
HomeFréttirHamar með FSu í vasanum þetta sinnið

Hamar með FSu í vasanum þetta sinnið

Sigur Hamars á FSu í úrslitum 1. deildar karla í kvöld var afar vel útfærður og var það ekki amalegt fyrir heimamenn frammi fyrir uppseldu húsi! Hamar tók 1-0 forystu í einvíginu með 86-71 sigri þar sem varnarleikurinn var traustur lengst af og Selfyssingum oftar en ekki ýtt út úr sínum aðgerðum. Hamar var hreint út sagt með FSu í vasanum. Julian Nelson var stigahæstur Hvergerðinga með 22 stig og 13 fráköst en Collin Pryor gerði 18 stig og tók 8 fráköst hjá FSu. Liðin mætast aftur á sunnudag og þá í Iðu á Selfossi. Með sigri á sunnudag kemst Hamar í Domino´s-deildina en vinni FSu verður oddaleikur í Frystikistunni.

Stóru strákarnir í Hamri fá myndarlegt klapp á bakið í kvöld, þeir léku lausum hala því ef Bjarni Rúnar Lárusson var ekki að stinga gat á varnarblöðru FSu þá voru það annað hvort Örn Sigurðarson eða Þorsteinn Gunnlaugsson. Á sama tíma var bakvarðasveit Hvergerðinga að gera kollegum sínum í FSu lífið ansi leitt með stífum varnarleik og með hverri mínútunni dró úr mætti gestanna svo úr varð öruggur sigur. Nú ef fólki leiðis almennt á parketinu að hafa skugga sem heitir Lárusson Jónsson þá eru þeir heldur ekkert óduglegir félagarnir Snorri Þorvaldsson og Sigurður Orri Hafþórsson en varnarframlag þeirra í kvöld var bráðmyndarlegt. 

Selfyssingar byrjuðu betur og komust í 2-7 áður en heimamenn í Frystikistunni tóku við sér, jöfnuðu og þegar leikar stóðu 17-17 í fyrsta leikhluta hertu Hamarsmenn róðurinn. Hamar gerði átta síðustu stig fyrsta leikhluta og leiddu 25-17 að honum loknum í rífandi flottri stemmningu. Stuðningssveitir beggja liða í miklum ham og ljóst að fólk ætti að mæta tímanlega í Iðu á sunnudag því „Suðurlandsskjálftarnir“ eru vel sóttir. 

Gott dæmi um vandræði FSu í kvöld var t.d. opnunin á öðrum leikhluta, stóru strákarnir í Hamri fengu boltanum dælt til sín inn í teig. Ef það gaf ekki af sér körfu þá var hann losaður t.d. á Lárus Jónsson sem þakkaði fyrir sig með þrist og kom Hamri í 30-19. Jafnvægið í leik Hamars var flott og gestirnri áttu fá svör. 

Bjarni Rúnar Lárusson gerði 11 stig í fyrri hálfleik en hann kenndi til í ökkla af gömlu meiðslum og lék ekkert í þeim síðari. Örn Sigurðarson og Þorsteinn Gunnlaugsson tóku við keflinu í fjarveru Bjarna og þá var Julian Nelson stöðugt að minna líka á sig. 

Helstu sóknarpóstar FSu voru ekki með á nótunum í kvöld, Ari Gylfason var í strangri gæslu og öll þau 9 stig sem hann bjó til í fyrri hálfleik voru aðallega fyrir hans eigin tilstuðlan. Byssur af þessu tagi þurfa betri þjónustu en Ari fékk í kvöld en bakvarðasveit Lárusar, Snorra og Sigga Haff var grimm og það skilaði sér í ráðleysislegum sóknarleik FSu. 

Hvergerðingar leiddu 50-37 í hálfelik þar sem Þorsteinn Gunnlaugsson var með 15 stig og 4 fráköst í liði Hamars en Hlynur Hreinsson var með 11 stig í liði FSu. Hlynur komst vel frá sínu í kvöld með aðeins einn tapaðan bolta þrátt fyrir að vera ávalt með ferska fætur á sér. 

Dagskipunin hélt sér hjá Hamri í síðari hálfleik. Hlaðborðið í teignum var opið fyrir stóru Hamarsmennina og stálmýsnar af bakvörðum stóðu sína vakt. 6-0 byrjun og Hamar slakaði lítið sem ekkert á klónni þó Þorsteinn Gunnlaugsson hefði fengið sína fjórðu villu í þriðja leikhluta og verið bróðurpart hans á tréverkinu fyrir vikið. 

Þessi leikhluti var sá ómyndarlegasti í kvöld í körfuboltalegum fagurfræðum, meiri Suðurlandsglíma ef eitthvað er. Að minnsta kosti einn leikhluti er svoleiðis í öllum leikjum úrslitakeppninnar svo af hverju ekki sá þriðji. Hamar leiddi 71-58 fyrir lokasprettinn og sá munur er ekkert til að ræða um en þegar Örn Sigurðarson opnaði þann fjórða með troðslu og heimamenn í stúkunni hárreittu sig af fögnuði var alveg ljóst að FSu fengi engan frostpinna upp úr þessari Frystikistu. 

FSu afrekaði aðeins 11 stig í fjórða leikhluta en Selfyssingar mega eiga það að þeir héldu áfram að berjast en við skrifum kvöldið þeirra á að lykilmenn liðsins hefðu mátt mæta mun grimmari til leiks. Lokatölur 86-71 og áður en þið farið að senda okkur pósta um að lokastaðan á KKÍ.is segi 86-69 þá viljum við bara segja strax að skýrslan ræður börnin góð og á henni stendur 86-71 og verður það sennilga bókfært í hið undursamlega kerfi KKÍ innan tíðar. 

Myndasafn – Jón Björn
Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -