spot_img
HomeFréttirHamar lagði Flaggskipið fyrir Vestan

Hamar lagði Flaggskipið fyrir Vestan

1. deildar lið Hamars gerði góða ferð á Ísafjörð í dag og lagði sjálftitlað flaggskip Vestra, Vestra-b, 63-82 í 32 liða úrslitum Geysisbikarsins. Takmark B-liðsins fyrir leikinn var tvíþætt, skora meira en 26 stig og stoppa stigakóng Íslandsmótsins frá því í fyrra, Everage Richardson, í að brjóta Íslandsmet Danny Shouse í flestum skoruðum stigum í einum leik. Bæði takmörk náðust, 26 stiga múrinn var rofinn um miðjan leik og Everage vantaði þegar upp var staðið 89 stig til að brjóta metið.

Maður leiksins
Florijan Jovanov hjá Hamri var sínum gömlu félögum frá Ísafirði erfiður en hann setti niður 5 af 6 þriggja stigaskotum sínum og skoraði 23 stig alls auk þess sem hann tók 12 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Helstu skorarar
Helgi Snær Bergsteinsson var stigahæstur hjá Vestra-b með 19 stig hann hann tók einnig 11 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Hinn síungi Baldur Ingi Jónasson kom næstur með 18 stig, þar af 15 úr þriggja stiga skotum, ásamt því að taka 7 fráköst og gefa 5 stoðsendingar.

Hjá Hamri var Florijan sem fyrr segir stigahæstur með 23 stig en Geir Elías Úlfur Helgason kom næstur með 16 stig og Marko Milekic skoraði 12. Everage Richardson hafði hægt um sig í leiknum, setti einungis 4 af 12 skotum sínum og skoraði 11 stig, sem er það minnsta sem hann hefur skorað á Íslandi og einungis í annað sinn sem hann brýtur ekki 20 múrinn í 30 leikjum sínum hér á landi.

Mynd: Guðjón Þorsteinsson
Fréttir
- Auglýsing -