Hamar tryggði sér oddaleik í úrslitum gegn KR í Iceland Express deild kvenna með 81-75 sigri á Vesturbæingum í Hveragerði í dag. Julia Demirer fór á kostum í liði Hamars með 23 stig og 26 fráköst en þær Unnur Tara Jónsdóttir og Hildur Sigurðardóttir voru með 18 stig í liði KR. Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda, KR leiddi mest af fyrri hálfleik og Hamar mest af þeim síðari. Á lokasprettinum komust KR-ingar yfir en Hamarskonur hrifsuðu sigurinn aftur upp í sínar hendur og fögnuðu því vel og innilega þegar oddaleikurinn var kominn í hús.
Rúma mínútu tók að gera fyrstu stig leiksins en það gerðu gestirnir úr Vesturbænum. Hildur Sigurðardóttir var þar á ferðinni en hún átti eftir að láta betur að sér kveða á næstu mínútum. Liðin voru ekki að velja bestu skotin í upphafi leiks og því var nýtingin fremur dræm en Hildur Sigurðardóttir splæsti síðar í fyrsta þrist dagsins og breytti stöðunni í 4-7 KR í vil.
Þegar leikhlutinn var hálfnaður fékk Signý Hermannsdóttir sína aðra villu í liði KR og hélt skömmu síðar á bekkinn enda vart hættandi á því að landsliðsmiðherjinn komi sér í meiri vandræði í upphafi leiks.
Koren Schram hristi svo skotkuldann af Hamarskonum með þriggja stiga körfu sem minnkaði muninn í 7-9 en við það fóru gestirnir að auka bilið. Hildur Sigurðardóttir gerði 7 af fyrstu 11 stigum KR í leiknum en Jenny Finora tók við keflinu þegar hún kom inn köld af bekknum og smellti niður tveimur þristum og breytti stöðunni í 12-19. KR-ingar voru mun líflegri í upphafi leiks og leiddu 17-25 eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta kom Hildur Sigurðardóttir fljótt inn af KR bekknum og lét strax að sér kveða með þriggja stiga körfu og staðan 23-30 KR í vil. Hildur var þarna komin með 12 stig á fyrstu 14 mínútum leiksins.
Hamarskonur leituðu mikið í teiginni að Juliu Demirer og skyldi engan undra enda fór hún á kostum. Hitt var þó að annar sóknarleikur Hamarsliðsins var lítt nothæfur og þegar aðrir en Julia létu til sín taka í sókninni var það fremur máttlítið gegn sterkri vörn KR.
KR vörnin var að gera Hamri lífið leitt en undir lok annars leikhluta var komið að heimaliðinu. Julia Demirer fór mikinn á báðum endum vallarins, reif niður hvert frákastið á fætur öðru. Það voru svo tveir stórir þristar frá Koren Schram á lokasekúndum annars leikhluta sem breyttu stöðunni í 45-42 Hamri í vil þegar blásið var til hálfleiks. Síðari þristur Schram var reyndar flautukarfa og Hvergerðingar gengu fílelfdir til leikhlés.
Julia Demirer var komin með 18 stig og 16 fráköst í hálfleik hjá Hamri en þær Hildur Sigurðardóttir og Jenny Finora voru báðar með 12 stig í liði KR.
Vægt er til orða tekið þegar liðin eru sögð stressuð og stefnulaus í upphafi síðari hálfleiks. Vandræðagangurinn var ótrúlegur, tapaðir boltar, misst skot og sterkur varnarleikur hélt síðari hálfleik stigalausum í fjórar mínútur! Guðbjörg Sverrisdóttir var svo góð að sjá auman á áhorfenndum og gerði fyrstu stig síðari hálfleiks og breytti stöðunni í 47-42 Hamri í vil. Eftir þessa meinloku lifnaði töluvert yfir stigaskorinu.
Þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta fékk Unnur Tara Jónsdóttir dæmda á sig sína fjórðu villu í liði KR og hélt á tréverkið en hún ásamt Hildi Sigurðardóttur voru mest ógnandi í sóknarleik gestanna sem og þegar Jenny Finora var að hóta skotum.
Íris Ásgeirsdóttir sleit Hamar svo fjarri KR þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum. Íris setti þá þrist og breytti stöðunni í 57-52 og Hamar leiddi svo 60-54 fyrir lokasprettinn og vann því leikhlutann 15-12, lítið skorað eftir ískaldar upphafsmínútur.
Signý Hermannsdóttir var óvölduðu fyrir utan þriggja stiga línuna í upphafi fjórða leikhluta og þakkaði pent fyrir sig með þrist og staðan 60-57. Eftir þennan varnarfeil Hamars þéttu heimakonur vörnina og í tvígang rann skotklukkan út á KR-inga. Hamar fylgdi vörninni sterku eftir með góðum sóknarleik og juku forskot sitt í 67-57 en þá var gestunum nóg boðið.
KR gerði áhlaup og á nokkrum mínútum náðu gestirnir forystunni, þær þéttu vörnina og fóru meira inn í teiginn gegn svæðisvörn Hamars sem skilaði þeim í 72-73 forystu eftir stökkskot frá Finora í Hamarsteignum. Á þessum kafla gerði KR 16 stig gegn 5 frá Hamri og nú var röðin komin að heimaliðinu enn á ný. Fáar en stórar sveiflur í leiknum og Hamar ætlaði sér að eiga þá síðustu, sem og þær gerðu.
Julia Demirer kom Hamri í 74-73 og snöggtum síðar fékk Unnur Tara sína fimmtu villu í liði KR og var fjarri því sátt við þá niðurstöðu. Hamar komst í 78-75 og KR hélt í sókn, brenndu af skotinu sínu þar sem Julia Demirer tók eitt mikilvægasta varnarfrákast leiksins og Hamar hélt í sókn. Þegar 33 sekúndur voru til leiksloka kláraði Guðbjörg Sverrisdóttir leikinn er hún setti þrist og breytti stöðunni í 81-75. KR átti sér ekki viðreisnar von eftir þetta og lokatölur reyndust 81-75.
Besti maður vallarins í dag var Julia Demirer með 23 stig, 26 fráköst, 4 stolna bolta og 3 varin skot. Með 26 fráköst setti Julia Demirer nýtt frákastamet í úrslitaseríu samkvæmt óstaðfestum heimildum Karfan.is. Henni næst í liði Hamars var Koren Schram með 20 stig. Unnur Tara Jónsdóttir og Hildur Sigurðardóttir voru báðar með 18 stig hjá KR. Unnur var auk þess með 11 fráköst og Hildur 7 stoðsendingar.
Oddaleikur liðanna fer fram í Vesturbænum næsta þriðjudag og geta Hvergerðingar kvatt sinn heimavöll sáttar og sælar enda síðasti leikurinn sem fram fer í Blómabænum leiktíðna 2009-2010.
Byrjunarliðin:
KR:
Hildur Sigurðardóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Margrét Kara Sturludóttir, Unnur Tara Jónsdóttir og Signý Hermannsdóttir.
Hamar:
Koren Schram, Kristrún Sigurjónsdóttir, Sigrún Ámundadóttir, Fanney Guðmundsdóttir og Julia Demirer.
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Kristinn Óskarsson



