spot_img
HomeFréttirHamar kreisti fram sigur á Ásvöllum (Umfjöllun)

Hamar kreisti fram sigur á Ásvöllum (Umfjöllun)

Haukar mættu toppliði Hamars á Ásvöllum í kvöld í 10. Umferð IE deildar kvenna. Hamar hafði ekki tapað leik fyrir leikinn og það varð engin breyting á því. Hvergerðingar hrukku í gang í seinni hálfleik, eftir að Haukar höfðu verið sterkari í fyrri hálfleik, og náðu ákjósanlegum mun en loka mínútur leiksins urðu æsi spennandi og grípa þurfti til framlengingar.
Haukar byrjuðu betur og komust í 6-0 áður en Hamarsstúlkur náðu að skora og voru mun sterkari aðilinn framan af. Hamar náði að minnka muninn og jafna í 15-15 en Katie Snodgrass setti niður þriggja stiga skot þegar 3 sekúndur voru eftir og Haukar leiddu með þremur stigum eftir leikhlutann 18-15.
 
Hamar skoraði fyrstu körfu annars leikhluta og jöfnuðu leikinn á ný. Haukastúlkur héldu áfram að berjast og náðu nokkra stiga forskoti. Flest gekk upp hjá Haukum á kafla á meðan lítið gekk hjá Hamri og voru Haukar komnir með þægilega forystu þegar lítið var eftir af leikhlutanum, 29-21. En Hvergerðingar gáfust aldeilis ekki upp og minnkuðu muninn fyrir leikhlé, 35-31.
 
Sennilegast hefur ræða Ágústs Björgvinssonar, þjálfara Hamars, verið magnþrungin í leikhléi því það var allt annað Hamarslið sem mætti á völlinn í seinni hálfleik. Kristrún Sigurjónsdóttir byrjaði með þriggja stiga körfu fyrir Hamar og mætti halda að hún hafi opnað einhverja gátt fyrir liðið því á næstu mínútum fór hver þristurinn af fætur öðrum ofaní körfu Hauka og undir lok leikhlutans var Hamar gjörsamlega búið að snúa dæminu við. Hamar leiddi með 17 stigum, 38-55, áður en Haukar náðu að laga stöðuna lítillega fyrir lok leikhlutans sem endaði 46-57 fyrir.
 
Haukar byrjuðu af krafti og minnkuðu muninn í sjö stig á fyrstu mínútunum fjórða leikhluta og þær staðráðnar í að leifa ekki Hamri að valta yfir sig á heimavelli. Staðan var enn sjö stig þegar að 5 mínútur voru eftir. Íris Sverrisdóttir minnkaði muninn fyrir Hauka í sex stig þegar tvær og hálf mínúta var eftir með þriggja stiga skoti og Ragna Margrét Brynjarsdóttir stal boltanum í næstu sókn Hamars. Aftur reyndi Íris þriggja stiga skot sem geigaði og Hamar hélt til sóknar. Aftur náði Ragna að stela boltanum en Guðbjörg Sverrisdóttir reif hann af henni, skoraði og kom Hamri í átta stiga forskot. Haukar tóku hraða sókn og minnkaði Katie Snodgrass muninn í fimm stig þegar að mínúta var eftir.
 
Leikmenn voru greinilega stressaðir á loka kaflanum. Slavica Dimovska tók þriggja stiga skot sem hitti ekki hringinn, Katie Snodgrass missti boltann upp á miðju og Guðbjörg Sverrisdóttir gerði skref í næstu sókn Hamars.
 
Katie Snodgrass minnkaði muninn í tvö stig ,63-65, þegar níu sekúndur lifðu leiks. Ágúst Björgvinsson tók leikhlé og lið Hamars byrjaði með boltann á miðju vallarins. Boltinn barst innkastið til Slavicu Dimovsku og var brotið á henni alveg um leið og hún fékk boltann. Slavica fór á vítalínuna og setti niður fyrra skotið. Seinna skotið geigaði og Ragna Margrét Brynjarsdóttir tók frákastið. Boltinn barst til Katie Snodgrass sem fann Guðrúnu Ámundadóttur galopna í horninu og setti hún niður þriggja stiga skotið sitt og jafnaði leikinn 66-66 og grípa þurfti til framlengingar.
 
Hamar komst í fimm stiga forystu með skotum af vítalínunni áður en Haukar náðu að skora sín fyrstu stig í framlengingunni, 68-71. Fanney Guðmundsdóttir mistókst að skora frá þriggja stiga línunni en það gerði Íris Sverrisdóttir ekki hjá Haukum og jafnaði leikinn 71-71. Haukar fengu svo álitlegt tækifæri til að komast yfir í fyrsta skipti í leiknum síðan í upp hafi þriðja leikhluta en Katie Snodgrass mistókst þriggja stiga skot. Kristrún Sigurjónsdóttir kom Hamri tveimur stigum yfir þegar ein og hálf mín var eftir af framlengingu og Haukum tókst ekki að skora í sinni sókn á eftir. Jaleesa Butler jók muninn í fjögur stig fyrir Hamar en Haukar minnkuðu muninn áður en Butler jók forystuna á nýjan leik.
Katie Snodgrass missti boltann í næstu sókn Hauka og Hamar skoraði. Munurinn var sex stig og 17 sekúndur eftir. Íris Sverrisdóttir tókst ekki að setja niður þriggja stiga skot og kláraði Butler leikinn á vítalínunni. Hamar vann því átta stiga sigur í hörkuleik 73-81.
 
Jaleesa Butler var stigahæst Hamar með 27 stig og 18 fráköst. Slavica Dimovska var með 21 stig og 8 stoðsendingar og Kristrún Sigurjónsdóttir var með 10 stig og 7 fráköst.
 
Hjá Haukum var Katie Snodgrass með 26 stig og 12 fráköst og Íris Sverrisdóttir gerði 17 stig.
 
[email protected]

Mynd: Jaleesa Butler kláraði dæmið fyrir Hamar á vítalínunni – karfan.is

 
Fréttir
- Auglýsing -