spot_img
HomeFréttirHamar í bílstjórasætið - leiða einvígið 2-1

Hamar í bílstjórasætið – leiða einvígið 2-1

?Hamar náði yfirhöndinni í einvíginu við Fjölni í úrslitakeppni 1. deildar karla þegar þeir sóttu sigur í Grafarvog í kvöld. Hamar leiðir nú einvígið 2-1 en næsti leikur liðanna fer fram í Hveragerði á fimmtudaginn og kemur þá í ljós hvort Fjölnir tryggi sér oddaleik í Dalhúsum á laugardaginn næstkomandi eða hvort Hamar tryggi sæti í lokaúrslitum á móti sigurvegaranum í einvígi Vals og Breiðabliks. 

Eftir jafnar upphafsmínútur í kvöld, seig Fjölnir fram úr í byrjun annars leikhluta og voru heimamenn komnir með 15 stiga forystu um miðbik fjórðungsins. Virtist stefna í nokkuð þægilegan sigur Fjölnis en gestunum gekk illa á þessum tímapunkti að komast að körfunni og setja niður skotin sín. Hvergerðingar voru þó engan veginn á þeim buxunum að gefast upp og söxuðu á forskot Fjölnis áður en flautað var til hálfleiks.

Seinni hálfleikur var æsispennandi, Hamar jafnaði metinn í stöðunni 54-54 með þriggja stiga körfu frá Erni Sigurðarsyni og komst yfir í stöðunni 56-58 með tveimur stigum frá Christopher Woods. Þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka kom Hilmar Pétursson Hamri í 6 stiga forystu, 81-87. Fjölnir fékk ítrekaðar tilraunir til að minnka muninn en það var ekki fyrr en 24 sekúndur voru eftir af leiknum að Róbert Sigurðsson smellti niður þristi fyrir Fjölni, minnkaði muninn niður í 3 stig og leikurinn galopinn. Hilmar Pétursson var þó fljótur að svara fyrir Hamar og jók forystu þeirra aftur í 6 stig þegar 10 sekúndur voru eftir af leiknum. Fór svo að Hamar sigraði leikinn með 5 stigum, 86-91 og landaði þar með öðrum sigrinum í einvíginu við Fjölni.

Erlendur Ágúst Stefánsson var stigahæstur í liði Hamars með 20 stig og Christopher Woods skoraði 16 stig og tók 13 fráköst. Hinn 16 ára gamli Hilmar Pétursson setti 19 stig fyrir gestina, þar af tvær mikilvægar þriggja stiga körfur á lokamínútum leiksins.

Hjá Fjölni var Collin Pryor atkvæðamestur með 22 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar, Garðar Sveinbjörnsson bætti við 17 stigum og Róbert Sigurðsson skoraði 14 stig og gaf 6 stoðsendingar.

Stigaskor Fjölnis: Collin Anthony Pryor 22 stig/10 fráköst/6 stoðsendingar, Garðar Sveinbjörnsson 17 stig, Róbert Sigurðsson 14 stig/6 stoðsendingar, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 11 stig, Egill Egilsson 10 stig, Bergþór Ægir Ríkharðsson 5 stig, Þorsteinn Gunnlaugsson 4 stig, Elvar Sigurðsson 3 stig.

Stigaskor Hamars: Erlendur Ágúst Stefánsson 20 stig, Hilmar Pétursson 19 stig, Christopher Woods 16 stig/13 fráköst, Örn Sigurðarson 15 stig/6 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 7 stig/7 stoðsendingar, Oddur Ólafsson 6 stig, Smári Hrafnsson 6 stig, Snorri Þorvaldsson 2 stig.

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik

Fréttir
- Auglýsing -