spot_img
HomeFréttirHallgrímur: Við höfum verið vitlausir í útlendingamálum

Hallgrímur: Við höfum verið vitlausir í útlendingamálum

17:20

{mosimage}
(Þórsarar)

Þór Þorlákshöfn mætir toppliði Breiðabliks í kvöld í 1. deild karla kl. 19:15 í Smáranum. Hallgrímur Brynjólfsson tók nýverið við liðinu og verður hann spilandi þjálfari. Þór hefur leikið einn leik undir hans stjórn þegar þeir unnu stórsigur á Reyni Sandgerði 70-103. Hallgrímur segir að Þórsarar þurfi að byggja upp lið til framtíðar og gera betur í útlendingamálum.

,,Við höfum verið vitlausir í gegnum tíðina í útlendingamálum og erum að súpa seyðið af því, örugglega svipað eins og mörg önnur lið,” sagði Hallgrímur í samtali við Karfan.is. ,,Við erum ekki með breiðan hóp en við erum helling af strákum sem geta spilað körfubolta. Við ákváðum að gefa þessum guttum séns og þeir sönnuðu sig svo um munar í fyrsta leik [70-103 sigur á Reyni S.] og nú er bara að halda áfram.”

Hallgrímur sagði að stefnan væri að byggja upp og tefla fram aðeins einum útlending í vetur. ,,Það verður bara spilað á strákum sem við höfum,” sagði Hallgrímur en tók það samt fram að engum verður vísað í burtu. ,,Ég banna ekkert strákum að koma – það mega allir koma en við sækjum ekki erlenda atvinnumenn og ætlum ekkert að vera hringja í annan hvern Íslending og bjóða þeim gull og græna skóga.”

Þórsarar voru á fínu róli í 1. deildinni þegar Björn Hjörleifsson sagði sig frá starfi sem þjálfari Þórs vegna anna í vinnu. Hallgrímur stökk á tækifærið þegar það gafst en viðurkenndi að þetta væri mikið verkefni sem hann væri að taka að sér. ,,Bjössi hringdi og sagði mér af hverju hann var að hætta eins og hefur komið fram og sagði að hann hafði mælt mér við stjórnina. Mér fannst þetta ekki vera spurning að taka þetta þegar mér bauðst það. Þarna eru guttar sem maður hefur verið að þjálfa síðan ég var 16 ára gamall. Ég hef alltaf óljóst stefnt að því að fara þjálfa meistaraflokk. Ég hefði kannski alveg mátt bíða í tvö til þrjú ár þangað en það er ekkert verið að spyrja að því.”

Sú ákvörðun að láta Tom Port fara og byggja upp á heimamönnum var þetta ákvörðun sem Þórsarar höfðu hugsað lengi um að gera? Blundar það ekki í öllum að gera það. Það er bara spurning að gera. Nú höfum við þorið og gerðum það,” sagði Hallgrímur en hann hefur sterkar skoðanir á fjölda erlenda leikmanna á Íslandi. ,,Þetta er kjaftæði út í eitt. Ég er ekki að spila í 1. deild af því það er metnaður minn ég væri í efstu deild ef staðan væri öðruvísi. Þetta eru strákar [erlendir leikmenn] sem eru að sækja launaseðilinn og eru margir hverjir ekkert skárri en margir þeirra sem sitja á bekknum þeir eru bara með launaseðil. Ég fer ekkert ofan af því,” sagði Hallgrímur ákveðin.

Tom Port er stigahæsti leikmaður ykka rmeð 25 stig i leik. Af hverju tóku þið þessa ákvörðun? ,,Strákurinn kunni að spila körfu en hann var ekkert að hjálpa okkur að byggja upp. Hann var neikvæður. Það var annað hvort að halda honum og eiga séns á 2. sæti en jafnframt að missa kannski fjóra eða fimm sterka spilara. Eða þá að láta hann fara og halda öllum góðum og nú fá allir tækifæri. Ég hef verið kokhraustur allan tímann að segja að ég muni spila á íslenskum strákum og ég verð að standa við það. Nú er tækifærið fyrir þessa stráka og menn verða að mæta á æfingar og þeir sem mæta ekki á æfingar fá bara að horfa á.”

[email protected]

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -