„Þetta er óskabyrjun, alveg klárlega. Við vorum frekar óviss um hvað við vorum að fara út í en sigurinn var ánægjulegur og gaman að koma svona sterkar til leiks,“ sagði Hallgrímur Brynjólfsson þjálfari nýliða Hamars í samtali við Karfan.is í kvöld. Hamar rassskellti Njarðvíkinga í fyrstu umferð Domino´s deildar en liðunum var spáð tveimur neðstu sætunum í deildarkeppninni.
„Fyrir kvöldið í kvöld vissum við lítið um Njarðvíkurliðið en þetta eru svona diktúrur í manni að þurfa að vita allt um alla til að geta skipulagt sig. Mér fannst undirbúningurinn þannig séð ómarkviss enda náðum við ekkert að kynna okkur andstæðinginn og vorum því bara búin að einbeita okkur að að leik okkar liðs.“
Aðspurður hvort byrjunin lofaði ekki góðu svaraði Hallgrímur: „Þetta gefur okkur smá byr en við verðum að passa að það rigni ekki upp í nefið á okkur enda var þetta bara einn leikur af 28. Það kom okkur ekki á óvart að vera spáð við botninn enda er liðið með þjálfara sem hefur ekki þjálfað áður í efstu deild, liðið er frekar ungt og óreynt svo ég var ekkert hissa á þessari spá, hana verðum við bara að afsanna svo það er bara hvatning,“ sagði Hallgrímur sem á næsta leik í deild gegn KR á útivelli.
„Það er tilhlökkun í hópnum að fara í DHL-Höllina en það verður erfitt, við vinnum bara áfram í okkar málum og reynum að bæta okkur sem lið leik fyrir leik,“ sagði Hallgrímur þjálfari nýliða og toppliðs Hamar en Hvergerðingar eru í toppsætinu eftir fyrstu umferðina með stærsta sigur umferðarinnar eða 77-61 sigur á Njarðvík.



