spot_img
HomeFréttirHálfdanardætur ná næstum því í lið

Hálfdanardætur ná næstum því í lið

10:25

{mosimage}
(Frá vinstri: Bára, Margrét Rósa, Árný og Hanna)

Haukar B skelltu KR B í 1. deild kvenna í körfuknattleik um síðustu helgi. Lokatölur leiksins voru 83-55 Haukum B í vil en leikurinn var nokkuð merkilegur fyrir þær sakir að í öðrum leikhluta komu fjórar systur saman inn á leikvöllinn í liði Hauka. Þeirra elst og reyndust er Hanna B. Hálfdánardóttir en hún gerði 16 stig tók 10 fráköst og stal 4 boltum í leiknum. Hanna tjáði Víkurfréttum að þetta hafi verið skemmtileg stund en systurnar koma frá mikilli körfuboltafjölskyldu þar sem foreldrar þeirra hafa bæðið unnið til titla með körfuboltaliðum Hauka.

„Þetta var í fyrsta sinn sem við spilum allar saman í meistaraflokki. Við komum allar saman inn á leikvöllinn í 2. leikhluta,“ sagði Hanna sem hefur tekið sér hlé frá A-liði Hauka í Iceland Express deildinni sökum bakmeiðsla sem hún hefur mátt glíma við lengi. „Mig langaði ofboðslega mikið til að spila þennan leik um síðustu helgi með systrum mínum og þær stóðu sig allar mjög vel. Ég hef samt verið í pásu út af bakinu á mér en bakmeiðslin eru ekki það alvarleg að ég þurfi í uppskurð sem gæti jafnvel gert meiðslin verri,“ sagði Hanna. Að loknum leiknum um helgina átti hún mjög erfitt uppdráttar á mánudag og þriðjudag sökum verkja. „Þetta er ekki eðlilegt hjá 22 ára gömlum leikmanni og hvað skólann varðar hef ég ekki tíma til þess að detta svona út,“ sagði Hanna sem er í læknanámi við Háskóla Íslands.

Foreldrar systranna þau Sóley Indriðadóttir og Hálfdán Markússon unnu titla á sínum tíma með Haukum en Hálfdán og Hanna eiga það sammerkt að glíma við bakmeiðsli. Hanna er þó ekki á vonarvöl og stefnir að því að koma inn í lið Hauka í Iceland Express deildinni eftir áramót og segir framtíð systra sinna vera bjarta, þó sér í lagi hjá þeirri yngstu. „Margrét Rósa ( 13 ára) er mikið framtíðarefni enda er hún hörkunagli,“ sagði Hanna en hinar tvær Bára Fanney (19 ára) og Árný Þóra (15 ára) áttu góðan dag með Haukum B um helgina og gerðu samanlagt 12 stig. Systurnar fjórar skoruðu því samtals 28 stig í leiknum og tóku 16 fráköst. Aðeins eina systur til viðbótar vantar í hópinn til þess að tefla fram heilu byrjunarliði en þess er ekki langt að bíða þar sem fimmta systirin er 8 ára gömul og æfir körfubolta með Haukum og þykir hið mesta efni. Alls eru systkinin sjö talsins og sex þeirra æfa körfubolta með Haukum. Einn strákur er í hópnum en hann er næst yngstur systkinanna og gefur stóru systrunum ekkert eftir í körfunni. 

Fréttin birtist í Víkurfréttum Álftanesi, Garðabæ og Hafnarfirði í morgun.

Fréttir
- Auglýsing -