spot_img
HomeFréttirHafnfirðingar á lífi

Hafnfirðingar á lífi

Haukar eru á lífi og hafa minnkað muninn í 2-1 í 8-liða úrslitum gegn Keflavík. Í kvöld var ekkert annað í boði en að duga ellegar drepast. Flottur og kraftmikill fjórði leikhluti gerði útslagið þar sem Haukar settu 30 stig yfir gesti sína og lönduðu 100-88 sigri. Liðin mætast aftur á mánudag í TM-Höllinni í Keflavík í fjórða leik seríunnar.
 
 
Keflvíkingar voru sprækari í upphafi leiks og komust í 3-8 en þá tóku Haukar við sér. Francis var grimmur, skellti í tvær góðar troðslur og Sigurður Ingimundarson bað um leikhlé fyrir Keflavík eftir 17-4 áhlaup Hauka í stöðunni 20-12. Líkamsræktarfrömuðurinn og reynsluboltinn Gunnar Einarsson kom af bekknum fyrir Keflavík eftir leikhlé og skellti niður þrist, 20-15. Haukar voru þó ekki hættir, Kári Jónsson mataði liðsfélaga sína, var með fimm stoðsendingar eftir fyrsta leikhluta og Emil Barja var einnig hárbeittur. Haukar leiddu 30-20 að leikhlutanum loknum. Langbesti fyrsti leikhluti Hauka í seríunni til þessa. Fyrstu tvo leikina gerðu Haukar samtals 33 stig í fyrsta leikhluta en 30 í kvöld með teignýtingu upp á 79%.
 
Gunnar Einarsson var ekkert hættur og hélt sig utan við þriggja stiga línuna, bætti við tveimur snemma í öðrum leikhluta fyrir Keflavík og minnkaði muninn í 39-28. Nokkuð hægðist um í stigaskorinu enda boðið upp á samtals 50 stiga fyrsta leikhluta. Haukar virtust alltaf hafa um þægilega 10 stiga forystu og Haukur Óskarsson tók upp á því að skella niður tveimur þristum í röð fyrir heimamenn og koma rauðum í 47-35.
 
Hérna sögðu Keflvíkingar stopp! Gestirnir skelltu í lás í vörninni, Haukar skoruðu ekki síðustu tvær og hálfa mínútuna í fyrri hálfleik og Keflvíkingar skoruðu 10 stig í röð og minnkuðu muninn í 47-45 þar sem Davon Usher lokaði fyrri hálfleik með sterku gegnumbroti og lagði boltann snyrtilega í körfuna. Sterkt og gott slútt hjá Keflvíkingum á fyrri hálfleik.
 
Alex Francis hafði hægar um sig í öðrum leikhluta heldur en þeim fyrsta og var með 12 stig í leikhléi og 6 fráköst. Hjá Keflavík var Damon Johnson með 12 stig í leikhléi en gamli sýnir hér að neðan að hann er enn illur viðureignar:
 
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Haukar: Tveggja stiga 60% – þriggja 33% og víti 63%
Keflavík: Tveggja stiga 44% – þriggja 31% og víti 82%
 
Kristinn Marinósson opnaði þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu fyrir Hauka og kom rauðum í 50-45. Keflvíkingar voru svo ekki lengi að jafna en það gerði Damon Johnson 51-51 þegar hann tók sóknarfrákast eftir loftboltaþrist frá Usher. Snöggtum síðar kom Arnar Freyr Jónsson Keflavík yfir 51-54 með þrist og var það fyrsta forysta Keflavíkur í leiknum frá því snemma í fyrsta leikhluta.
 
Þristi Arnars var svarað í sömu mynt af Kára Jónssyni en framan af þriðja voru Haukar að brigsla við að senda á Francis á blokkinni og iðkuðu svo þann óskunda að horfa bara á hann leika listir sínar með ekkert of miklum árangri, engin hreyfing og þar af leiðandi engin sóknarfráköst. Þegar rættist úr þessu hjá Haukum, menn fóru að hreyfa sig varð rauða sóknin auðvitað mun öflugri og Haukar náðu forystu að nýju.
 
Helgi Björn Einarsson bauð svo upp á tilþrif leiksins þegar hann við endalínuna „sheikaði og beikaði“ og fór svo í „reverse“ sniðskot, afar myndarleg flétta hjá krafthúsaframherjanum og Haukar leiddu 67-59. Keflvíkingar áttu samt lokaorðið þegar Reggie Dupree minnkaði muninn í 70-65 með gegnumbroti og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
 
Haukur Óskarsson átti flottar rispur fyrir sína menn í Hafnarfirði í fjórða hluta, stökkskot frá kappanum kom Haukum 12 stigum yfir 84-72 og Keflvíkingar tóku leikhlé. Þrátt fyrir nokkrar góðar tilraunir tókst Keflvíkingum ekki að færast nærri og Haukar sem áttu flottan fyrsta leikhluta enduðu leikinn á sömu nótum, með því að gera 30 stig í leikhlutanum. Lokatölur 100-88 og þungu fargi létt af Haukamönnum.
 
Keflvíkingar að sama skapi voru að elta lungann úr leiknum og það hafði sitt að segja, Damon og Usher áttu góðar rispur sem og Gunnar Einarsson með nokkrar langdrægar en breitt framlag byrjunarliðs Hauka var myndarlegt. Francis 22/13/7, Haukur Óskars 23/7, Emil Barja 16/3/10, Kári Jónsson 15/2/8 og Kristinn Marinósson 11/2. Við látum ekki Helga Björn Einarsson ónefndan en nokkur lykilaugnablik geta Haukar eignað honum með vinnusemi og baráttu sem hafði sitt að segja fyrir kyndinguna.
 
Mynd/ Davíð Eldur
 
  
Fréttir
- Auglýsing -