13:05
{mosimage}
Keflavík og Haukar mætast í bikarúrslitaleik kvenna á laugardaginn og ætli Keflavíkurkonur sér sigur í leiknum þurfa þær að gera eitthvað sem þær hafa ekki afrekað í einn og hálfan áratug.
Þær hafa ekki unnið úrslitaleik án Önnu Maríu Sveinsdóttur í 14 ár eða síðan veturinn 1992-93. Keflavík var þá með yfirburðarlið og vann alla 18 leiki sína. Síðan þá hefur Keflavík aðeins unnið titil ef Anna María var með.
Keflavík tapaði án Önnu Maríu í bikarúrslitunum 2001, hefur tapað öllum úrslitaleikjum sínum í Fyrirtækjabikar KKÍ án hennar og þá hafa allir sex leikir liðsins í lokaúrslitunum Íslandsmótsins tapast þegar Keflavíkurkonur hafa ekki getað leitað til Önnu Maríu inn á vellinum
Anna María Sveinsdóttir vann tólf Íslandsmeistaratitla og tíu bikarmeistaratitla með Keflavík þar af lék hún 13 bikarúrslitaleiki. Anna María skoraði 201 stig í leikjunum þrettán og er stigahæsti leikmaður bikarúrslitaleiks karla og kvenna frá upphafi.
Anna María hefur alls tekið þátt í 25 úrslitaleikjum eða úrslitaeinvígum og unnið 20 þeirra. Það má segja að Helena Sverrisdóttir hafi tekið við krúnunni af Önnu Maríu því Haukar hafa unnið alla úrslitaleiki sína með hana innanborðs. Helena hefur leikið frábærlega í úrslitaleikjum sínum. Hún var með 22 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst í bikarúrslitaleiknum 2005, skoraði 20 stig, tók 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar í úrslitaleik Poweradebikarsins 2005, var með 18 stig, 13 fráköst og 9,3 stoðsendingar að meðaltali í lokaúrslitum Íslandsmótsins 2006 og í eina úrslitaleik tímabilsins til þessa, úrslitaleik Poweradebikarsins , skoraði hún 33 stig og gaf 12 stoðsendingar.
Frétt úr Fréttablaðinu í dag – www.visir.is



