spot_img
HomeFréttirHættum við þyrluna á síðustu stundu

Hættum við þyrluna á síðustu stundu

 
Á fimmtudag er staðan ansi strembin fyrir forsvarsmenn Körfuknattleikssambands Íslands. Miðað við úrslit í síðustu umferð Iceland Express deildar karla geta bæði KR og Grindavík orðið deildarmeistarar á fimmtudag. Úr vöndu er að ráða þar sem KR leikur í Stykkishólmi og Grindavík í Seljaskóla, á milli þessara staða er um tveggja stunda akstur og því vart í boði að bíða með sigurlaunin í Hyrnunni í Borgarnesi á meðan úrslit leikjanna ráðast.
Karfan.is náði tali af Hannesi Sigurbirni Jónssyni formanni KKÍ sem sagði að fyrr í dag hefði sú ákvörðun verið blásin af að ráða þyrlu í verkið.
 
,,Þessi hugmynd með þyrluna kom inn í umræðuna í dag en hún var fljótt blásin af, það væri eitthvað svo mikið 2007,“ sagði Hannes léttur á manninn en viðurkennir að þessi staða hafi verið nokkur höfuðverkur.
 
,,Við náðum þó að leysa þetta á mjög farsælan hátt, þannig er að þegar lið verður deildarmeistari er afhentur eignabikar og farandbikar, annar fer í Stykkishólm á fimmtudag og hinn í Seljaskóla. Verðlaunapeningarnir eru svo minna mál þar sem við látum útbúa tvö sett,“ sagði Hannes svo það eru 18 deildarmeistaraverðlaunapeningar sem aldrei sjá fagnaðarlæti.
 
Á fimmtudag verða því tvö sett í gangi, tveir deildarmeistaratitlar, tvö pör af verðlaunapeningum og formaður og varaformaður KKÍ á öðrum hvorum staðnum, reiðubúið til afhendingar, en annað þeirra mun fara erindisleysu og væntanlega ekki þykja sú för jafn súr og annað hvort Grindavík eða KR.
 
Fréttir
- Auglýsing -