Spennan er nú í hámarki og undanúrslitin framundan í Iceland Express deild kvenna. Eins og gefur að skilja hafa sum lið deildarinnar lokið keppni og eru komin í sumarfrí, mæta ekki aftur í búning fyrr en næsta september, biðin er því tæpir sjö mánuðir. Í byrjun febrúarmánaðar tók Karfan.is púlsinn á þjálfurunum í Iceland Express deild kvenna og þar stóð ekki á svörunum og rauði þráðurinn var að þeir vildu fleiri leiki í deildinni. Karfan.is tekur nú upp þráðinn við Hannes Sigurbjörn Jónsson, formann KKÍ en hann upplýsir að ekki þurfi að bíða eftir ársþingi KKÍ til að gera breytingar á keppnisfyrirkomulaginu.
,,Nú á þessu keppnistímabili má segja að fleiri hafi verið að ræða um það að fjölga leikjum þar sem það líða stundum 7-10 dagar á milli leikja og þá sérstaklega hjá þeim liðum sem detta snemma út í Subwaybikarnum,“ sagði Hannes og kveður bæði stjórn og starfsmenn KKÍ skoða þessi mál með opnum hug.
,,Þessi umræða kemur upp annað slagið en umræðan hefur verið meiri nú en oft áður. Stjórn og starfsmenn hafa rætt þetta mikið í vetur og fyrir okkar leiti þá er um að gera að skoða þessi mál vel og það er í raun tvennt sem hægt er að gera til þess að lágmarka að svona langur tími sé t.d á milli heimaleika hjá félögunum. Annað dæmið lítur þannig út að þétta mótahaldið þannig að byrja seinna og hætta fyrr. Byrja að spila t.d. efstu deildirnar í nóvember og klára í mars eða hitt dæmið sem er að fjölga umferðum og leikjum. Við höfum unnið nokkrar hugmyndir hvernig það liti út að fjölga umferðum og leikjum og að hafa þá keppnistímabilið áfram október-apríl því ég held að það vilji langflestir ef ekki allir gera það frekar en að fara að stytta tímabilið,“ sagði Hannes sem á von á að keppnisfyrirkomulagið verði tekið fyrir á næsta formannafundi.
,,Formannafundur KKÍ fer fram 20.mars n.k. og stjórnin hefur ákveðið að eitt af aðalmálefnum þess fundar sé að ræða keppnisfyrirkomulagið og mun hún leggja fram tillögur sem hægt er svo að ræða á fundinum. Ef meirihluti formanna vill breytingar þá er hægt að byrja næsta keppnistímabil með nýju sniði, það þarf ekki að bíða þings vorið 2011,“ sagði Hannes svo ljóst er mögulega gætu orðið breytingar á keppnisfyrirkomulaginu á næstu leiktíð.
,,Ég hvet alla þá sem hafa áhuga á þessu málefni að ræða þetta innan sinna raða og mynda sér skoðun á því hvort menn vilja breytingar eða ekki. Það eru auðvitað hinir ýmsu þættir sem þarf að hafa í huga en það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. En ég vil samt benda á það að hið fullkomna mótahald er ekki til – það er ekki til nein ein formúla að besta mótahaldinu nema jú sú að úrlsitakeppnir eiga að sjálfsögðu ávallt að vera hjá okkur,“ sagði Hannes og varla margir þarna úti sem myndu setja sig á móti þessari fullyrðingu eftir magnaðar úrslitakeppnir síðustu ár og skemmst að minnast oddaleikjanna í báðum Iceland Express deildunum á síðasta tímabili.
Ljósmynd/ Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands.



