spot_img
HomeFréttirGylfi Þorkelsson: Skemmtilegustu liðin í 1. deild

Gylfi Þorkelsson: Skemmtilegustu liðin í 1. deild

14:00

{mosimage}

Gamla kempan Gylfi Þorkelsson hefur lengi verið viðloðandi íslenskan körfubolta, hann lék lengi í efstu deild með liðum eins og Keflavík og ÍR auk þess sem hann hefur lengi leikið körfubolta með liðum á Suðurlandi. Gylfi er í sérkennilegri stöðu í úrslitakeppni 1. deildar karla en hann á son í sitthvoru liðinu, Ara í FSu og Ragnar í Val.

Karfan.is hafði samband við hann og lagði fyrir hann nokkrar spurningar.

Hvernig leggst þetta einvígi í þig?
Einvígið leggst mjög vel í mig. Þessi lið spila að mínu mati skemmtilegasta körfuboltann í 1. deildinni, hraðan og fjölbreyttan sóknarleik og aðgangsharðan varnarleik. Þetta verður skemmtilegt fyrir áhorfendur því bæði lið hafa góða liðsheild og marga leikmenn sem geta sett mark sitt á leikinn. Það hefur ekki verið þannig í vetur hjá þessum liðum að boltanum sé bara  hent á einhvern kana sem á að klára flestar sóknir og taka af skarið. Liðin hafa unnið sína heimaleiki í innbyrðisviðureignum í vetur og það kæmi mér ekki á óvart að heimavöllurinn réði úrslitum.

Hvort verður þú FSumegin eða Valsmegin?
Mér skilst að Ari sé ekki í liðinu hjá FSu þannig að það verður auðvelt fyrir mig að styðja Ragnar!

Hverjir verða lykilmenn hvors liðs?
Breiddin er meiri FSu megin, að mínu mati. Liðið sýnist vera að toppa á réttum tíma. FSu vinnur ekkert á einstaklingsframtaki en ef liðsheildin verður sterk og leikmennirnir ná saman inni á vellinum býður Valsmanna erfitt kvöld. Árni, Vésteinn, Sævar, Matt, Ante og Emil geta gert hvað sem er og fleiri þurfa að leggja hönd á plóg. Hafþór, Nick, Chris og Björgvin þurfa líka að skila sínu. Aðalstyrkur FSu liðsins er þessi ógnarhraði og skemmtilegi sóknarleikur. Ef liðið kemst ekki á flug að þessu leyti og menn missa sig í einstaklingsframtak, þá verður þetta  barningur og Valur gæti unnið í kvöld.

Valsmenn hafa verið brokkgengir í vetur en eru sömuleiðis á réttu róli. Það skipti sköpum fyrir þá í síðasta leik gegn Ármanni að Alexander Dungal og Hörður Hreiðarsson vöknuðu heldur betur til lífsins, eftir hálfgerðan Þyrnirósarsvefn á löngum köflum í vetur. Það er algert lykilatriði fyrir Val að þeir verði glaðvakandi í öllu einvíginu, annars er sóknarleikur Vals of einhæfur. Craig mun skila sínu og Ragnar kemur alltaf einbeittur til leiks, hann kann að vinna leiki. Rob og Jason hafa reynsluna og eru akkerin, en þeir verða ekki í aðalhlutverkum í stigaskori. Ekki heldur Guðmundur Kristjánsson, en hann er lykilmaður í varnarleiknum. Þess vegna er það lífsspursmál fyrir Val að fá ógnun frá Alla og Herði, og Steingrími Ingólfssyni, hann verður líka að setja niður sín skot.

Hvaða möguleika eiga liðin í Iceland Express deildinni að ári?
Þau eiga góða möguleika. Vonandi hætta liðin í úrvalsdeildinni þessari heildsölustarfsemi og endalausa innflutningi. Þetta er komið út yfir allan þjófabálk. En ef þessu heldur fram sem verið hefur er aðalspurningin hvað liðin flytja inn. Liðin í fyrstu deild geta alveg eins verið meðal 12 bestu ef þau fá sér 4 farandverkamenn. Í báðum þessum liðum eru bráðefnilegir, en ungir leikmenn sem munu bara bæta sig eins og til þarf til að spila þarna uppi, þegar í slaginn er komið. Það eru gömul sannindi, sem mér finnst hafa gleymst svolítið undanfarið, að ungir, efnilegir leikmenn verða góðir ef þeir fá að koma inn á og spila gegn sterkum andstæðingum. Nokkrir hafa fengið tækifæri og blómstrað en aðrir hafa vermt bekkinn og horft á misgóða útlendinga, strákar sem þegar væru orðnir góðir við réttar aðstæður.

[email protected]

Mynd: Ólafur Rafnsson

Fréttir
- Auglýsing -