spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaGunni Óla í Stjörnuna

Gunni Óla í Stjörnuna

Á blaðamannafundi kl.16:00 í dag kynnti Stjarnan til leiks nýjasta leikmann sinn, Gunnar Ólafsson. Hann bætist í þrælöflugan hóp þar þó að hann verði reyndar ekki gjaldgengur fyrr en eftir að félagaskiptaglugginn opnar á ný.

Félagaskiptaglugginn lokaðist 15. nóvember síðast liðinn og mun ekki opnast aftur fyrr en 1. janúar 2020. Gunnar Ólafsson mun því ekki geta annað en æft með liðinu fram til áramóta og mun væntanlega spila sinn fyrsta leik gegn Þór Þorlákshöfn 5. janúar.

Gunnar spilaði fyrir Keflavík á seinasta tímabili

Gunnar varð laus undan samningi við spænska fé­lag­inu Oviedo fyrir skemmstu. Gunn­ar gekk til liðs við Oviedo fyr­ir tíma­bilið og skoraði 3 stig, gaf 0,5 stoðsend­ing­ar og tók 0,5 frá­köst að meðaltali í átta leikj­um í spænsku B-deild­inni. Í fyrra spilaði Gunnar með Keflavík og skilað þar 14,1 stigi, 3,9 fráköstum og 2,0 stoðsendingum að meðaltali í leik á sama tíma og hann var einn besti varnarmaður deildarinnar.

Arnar Guðjóns: Þegar svona tækifæri gefst þá hopparðu á það.

Arnar Guðjóns: “Þetta er liður í að styrkja félagið til lengri tíma litið.”

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, settist niður og spjallaði við Körfuna eftir að ráðningin var kynnt. Hann segir að Gunnar verði með þeim næstu rúmu tvö árin, að því gefnu að hann fái ekki atvinnutilboð að utan.

“Þetta er liður í að styrkja félagið til lengri tíma litið,” segir Arnar og leggur áherslu á að þarna sé um langtímafjárfestingu að ræða hjá félaginu. Hann segir að hann og Gunnar hafi rætt saman í sumar, en þessar umræður hafi ekki farið aftur af stað fyrr en fyrir um það bil viku síðan.

Gunnar verður því miður ekki gjaldgengur fyrr en eftir áramót þegar félagaskiptaglugginn opnar aftur, enda lá ekki fyrir að hann færi í Stjörnuna fyrr en í gærkvöldi. “Já, verður ekki með fyrr en eftir jól,” segir Arnar og leggur aftur áherslu á að hér sé um langtímafjárfestingu að ræða.

Margir góðir leikmenn eru nú þegar gengnir til liðs við Stjörnuna síðan að Gunnar spilaði seinast á Íslandi, hvernig sér Arnar fyrir sér að finna mínútur fyrir alla þessa leikmenn? “Þeir spila mest sem standa sig best,” segir hann og bætir við: “Leikmenn hafa verið að spila hátt í 35 mínútur, við þurfum ekki að gera það lengur. Það er kostur.”

Arnar hefur augljóslega ekki miklar áhyggjur af því að skipta upp mínútunum milli sinna Stjörnuleikmanna og lokar viðtalinu með því að benda á kjarna málsins: “Í hreinskilni sagt þá sáum við fyrir okkur að fá til okkar leikmann sem okkur, og mér, þykir góður. Þegar svona tækifæri gefst þá hopparðu á það.”

Fréttir
- Auglýsing -