spot_img
HomeFréttirGunnar: Það er allt hægt í körfubolta

Gunnar: Það er allt hægt í körfubolta

 
,,Við ákváðum að halda okkur við þetta litla og einfalda í lífinu, að hætta ekki og gefast ekki upp. Við vorum kannski farnir að taka aðeins of mörg og of erfið skot fyrir utan en við fórum svo að leita meira inn í teig. Það var samt vörnin í þriðja og fjórða leikhluta sem virkaði best,“ sagði Gunnar Sverrisson þjálfari ÍR sáttur í leikslok eftir baráttusigur á Grindavík 91-89 í Iceland Express deild karla í kvöld.
,,Síðustu þrír leikir hjá okkur hafa verið sérstaklega áhorfendavænir og ekki var þessi nú síðri og tryggir okkur í úrslitakeppnina. Núna erum við búnir að vinna Grindavík, eitt af bestu liðum deildarinnar, og það er bara frábært og strákarnir hafa staðið sig afskaplega vel. Það var erfiður tími hjá okkur í byrjun árs en síðustu fjórir leikir hafa verið góðir svo ég er bara voðalega bjartsýnn á framhaldið,“ sagði Gunnar en verða ÍR-ingar með heimavöll í Seljaskóla í úrslitakeppninni?
 
,,Ég bara veit það ekki, ég bíð bara ennþá eftir því að borgarstjórinn í Reykjavík tilkynni það að við fáum parket á þetta gólf fyrir næsta vetur, ekki tekst það nú fyrir úrslitakeppnina. Í dag hafa verið settir peningar í golfíþróttina sem er fínt líka en það má ekki alltaf gleyma Breiðholtinu því það eru aðrir bæjarhlutar sem greinilega hafa fengið meira en við. Það væri afskaplega gaman fyrir úrslitakeppnina ef liðið fengi þær upplýsingar að parket væri komið á gólfið fyrir næsta tímabil,“ sagði Gunnar en ÍR-ingar hafa að mestu leikið sína heimaleiki í vetur í Íþróttahúsi Kennaraháskólans þar sem dúkur þekur gólf Seljaskólans.
 
ÍR mætir KR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og myndi það koma Gunnari á óvart ef spekingarnir myndu spá KR áfram úr þeirri rimmu?
,,Það er bara fínt, við vorum að vinna Grindavík hérna en við berum vissulega virðingu fyrir KR og þeirra stöðu en mér finnst úrslitakeppnin bara frábær bónus eftir gengi liðsins eftir áramót og bíð spenntur,“ sagði Gunnar sem er kominn stutt á veg sem þjálfari í úrvalsdeild en hefur verið viðloðandi körfuboltann um árabil. Hefur hann minni til þess að deildin hafi verið áður eins jöfn og nú?
 
,,Nei, ég er ofboðslega ánægður með þessa skemmtilegustu íþrótt í heimi því deildin hefur staðið undir nafni í vetur hjá öllum liðum. Þó deildin hafi vissulega verið tvískipt þá hefur líka verið gaman í neðri hlutanum og mér hefur stundum fundist fjölmiðlar gleyma því undanfarið, sérstaklega sjónvarpsstöðvarnar. Þær hafa hreinlega gleymt því að það eru aðrir leikir í gangi og svo var núna t.d. lið í neðri hlutanum að vinna lið í efri hlutanum og það segir bara að það er allt hægt í körfubolta.“
 
Fréttir
- Auglýsing -