Keflvíkingurinn knái, Gunnar Ólafsson lék sinn fyrsta leik með St. Francis Terriers í kvöld og þá var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur. Fyrsti andstæðingur Terriers í ár var enginn annar en hin margrómaða miðherjaverksmiðja Georgetown Hoyas.
Hoyas byrjuðu af krafti og náðu strax góðri forystu sem Terriers tókst að saxa niður rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Munurinn var 14 stig þegar hann var mestur. Munurinn var aðeins 6 stig í hálfleik eða 31-37 fyrir Hoyas. Hoyas stukku aftur fram með látum í upphafi seinni hálfleiks og náðu enn og aftur góðri forystu með 3-12 spretti. Leikmenn Terriers hittu illa eða um 32% utan af velli á meðan Hoyas settu niður vel yfir helming skota sinna. Sigurinn var öruggur hjá Hoyas en þetta endaði í 62-83 fyrir Georgetown háskólanum.
Gunnar var fyrsti varamaður inn á fyrir Terriers en náði ekki að feta sig almennilega í sóknarleiknum, þó hann hafi getað bætt fyrir það í vörn. Hann skoraði eitt stig af vítalínunni en hitti úr engu af þeim 4 þriggja stiga skotum sem hann tók í leiknum. Hann tók þó 2 fráköst, stal einum bolta og varði eitt skot.
“Við misstum einbeitinguna í byrjun seinni hálfleiks og þá stungu þeir okkur af,” sagði Gunnar í stuttu spjalli við Karfan.is eftir leikinn. “Tveir af lykilmönnum okkar áttu ekkert sérstakan leik og ég átti ekki góðan leik heildur.”
Brent Jones, bakvörður St. Francis var stigahæstur í sínu liði með 13 stig, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta en tapaði hins vegar sjálfur 8. Terriers töpuðu 17 boltum á móti 8 hjá Georgetown og þurfa væntanlega að passa þá hluti betur í næstu leikjum.
Gunnar segir leikinn þarna úti vera allt annan en hér heima. Miklu harðari vörn og meira “physical”. Leikurinn er einnig mun hraðari að hans mati og “maður getur ekkert slakað á í vörninni. Þarf alltaf að vera á fullu.”
St. Francis eiga næst leik gegn háskóla landhers Bandaríkjanna eða Army og mun sá leikur fara fram á heimavelli Terriers í Brooklyn Heights í New York á miðvikudaginn 19. nóv nk. á miðnætti á okkar tíma.



