Líkt og greint var frá í gær hlaut Elvar Friðriksson leikmaður Barry háskólans viðurkenningu fyrir góðan námsárangur körfuboltamanna í háskólunum í Bandaríkjunum. Það sem ekki kom fram var það að hann var ekki eini íslendingurinn sem hlaut þessi verðlaun frá Sambandi körfuboltaþjálfara í Bandaríkjunum.
Gunnar Ólafsson leikmaður St. Francis í efstu deild bandaríska háskólaboltans hlaut einnig þessa frábæru viðurkenningu. Gunnar er að fara á lokaár sitt fyrir skólann en þessa dagana æfir hann með landsliðinu sem undirbýr sig fyrir Eurobasket en hann var valinn í 24 manna æfingahóp. Auk þess var Gunnar í hópnum sem lék fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum.
Til að hljóta þessa viðurkenningu þurfa íþróttamennirnir að mæta háum kröfum námslega. Leikmennirnir þurfa að leika með liði í efstu þremur deildum háskólaboltans. Hafa þurft að vera í eitt ár skráð í skólann og fá hærri samreiknaða einkunn (GPA) en 3,2 (hæst er 4).
Gunnar var með 4,4 stig og 5,1 frákast að meðaltali í 27 leikjum sem hann lék á síðasta tímabili fyrir St. Francis. Hann var í 17. sæti yfir frákastahæstu leikmenn í sinni deild og skoraði mest 22 stig gegn sterku liði Canisius. Gunnar nemur Stjórnun við háskólann en ekki fylgir með frétt skólans hver einkunn Gunnars var á árinu.
Gunnar var einn af þremur leikmönnum skólans sem hlaut þessu verðlaun. Þjálfari liðsins Glenn Braica sagði um viðurkenningu leikmannanna. „Ég er svo ótrúlega stoltur af Glenn, Gunnari og Jagos fyir að fá þessa viðurkenningu. Allir þrír eru þeir stórkostlegir leikmenn skólans, frábærar fyrirmyndir og góðir strákar.