LIU Brooklyn og St. Francis Brooklyn mættust í sínum árlega Battle of Brooklyn leik sem leikinn var í 40. skipti í gærkvöldi. Frá fyrstu mínútu voru allir gíraðir í þennan leik og augljóst að hér var miklu meira í húfi en bara stig á töflunna í NEC riðlinum.
St. Francis byrjuðu mun betur, skoruðu 4 fyrstu stigin og náðu snemma 2-7 forystu en LIU tókst að vinna sig upp og halda í við heimamenn með góðum varnarleik og tveimur mikilvægum þristum frá Gerrell Martin.
Þegar fór að nálgast hálfleik fóru St. Francis að sýna mátt sinn og meginn í teignum og erfitt var fyrir LIU að athafna sig í teignum. Gunnar Ólafsson setti svo þrist úr vinstra horninu þegar flautað var til hálfleiks og kom St. Francis upp í 6 stiga mun 36-42 í hálfleik.
Í seinni hálfleik stýrðu St. Francis öllu spili á vellinum og héldu nokkuð öruggri forystu út allan leikinn. LIU áttu erfitt með að koma upp almennilegu flæði í sóknina og endaði Elvar Friðriksson oft á því að þurfa að búa eitthvað til sjálfur, með misgóðum árangri.
St. Francis innsiglaði svo öruggan 64-81 sigur á LIU Brooklyn í 40. Battle of Brooklyn leiknum, þeim fyrsta sem Terriers sigra síðan 2010. Þá sigruðu St. Francis eftir þríframlengdan leik.
Gunnar Ólafsson átti frábæra innkomu fyrir St. Francis. Kom inn snemma í leiknum af bekknum og setti niður 6 stig og var 2/3 í skotum, stal 1 bolta og tók 3 fráköst.
Aðspurður hvað hefði gert gæfumuninn í leiknum sagði Gunnar að varnarleikurinn hefði spilað mikinn þátt í því að sigurinn félli þeim í hag. “Svo er Amdy Fall alltaf svo mikilvægur fyrir okkur,” bætti hann við. Amdy þessi varði 4 skot í leiknum og gerði LIU lífið mjög leitt í teignum. En hvað gerði Gunnar til að undirbúa sig fyrir þennan mikilvæga leik? “Það peppaði mig upp að þetta var rival leikur og svo auðvitað að ég var að fara að spila á móti Elvari og Martin.”
Martin Hermannsson og Elvar Friðriksson áttu fínan leik fyrir LIU. Elvar með 12 stig, hitti 3/9 utan af velli og þar af 1/3 í þristum. Elvar bætti við 6 stoðsendingum og 2 fráköstum. Martin fann illa skotið sitt en hann setti niður 2/8, skoraði 7 stig og bætti við 3 fráköstum. Martin átti einnig annað af tveimur vörðum skotum liðsins. Martin leiddi samt liðið í töpuðum boltum með 4.
LIU spiluðu leik á fimmtudaginn svo undirritaður spurði strákana hvort þreyta væri að segja til sín. “Þeir spiluðu líka á fimmtudaginn framlengdan leik, svo ég held að við getum ekki notað það sem afsökun,” sagði Elvar. “Þeir voru fastir fyrir og fóru illa með okkur í fráköstunum. Þeir voru að hitta vel og svo kom Gunnar líka með flotta innkomu hjá þeim og setti 6 stig á stuttum tíma.”
“Þeir ýttu okkur bara út úr öllum okkar sóknaraðgerðum og voru vel undirbúnir,” bætti Martin við. “Við náðum aldrei upp okkar leik þó að hefðum verið inni í leiknum mest allan tímann.” Martin minntist einnig á það að Svartþrestirnir hefðu brennt af allt of mörgum vítum og að það megi ekki í svona leik. LIU brenndi af 8/24 í vítum í leiknum.



