,,Njarðvík fór í leikinn og mátti ekki tapa, við fórum í leikinn til þess að vinna og í dag bara vorum við ekki alveg klárir. Við sýndum þó karakter að koma til baka í fjórða leikhluta og áttum séns á því að koma þessu í framlengingu ef ég hefði sett þetta vonlausa skot niður í restina,“ sagði Gunnar Einarsson stigahæsti leikmaður Keflavíkur í kvöld eftir 86-88 ósigur Keflavíkur gegn Njarðvík í þriðja undanúrslitaleik liðanna. Gunnar átti erfiðan þrist þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka, boltinn dansaði á hringnum áður en hann hoppaði upp úr og Njarðvíkingar fögnuðu sigri skömmu síðar.
,,Mér fannst boltinn vera á leiðinni ofan í en svona er körfuboltinn, þetta er skemmtilegur leikur,“ sagði Gunnar sem bjóst aldrei við öðru en að Njarðvíkingar myndu bíta frá sér.
,,Ég bjóst alltaf við hörkuleik sem og þetta varð í kvöld en við misstum smá einbeitingu í þriðja leikhluta þegar Maggi setti á okkur tvo þrista og það var ansi stór biti. Svona er körfuboltinn bara,“ sagði Gunnar en Keflvíkingar eiga nokkuð inni hjá Draelon Burns sem lék ekki af fullri getu í kvöld sökum meiðsla.
,,Hann verður kominn í lag fyrir næsta leik og átti ekki nægilega góðan leik í kvöld en verður klár á þriðjudag,“ sagði Gunnar sem leikið hefur frábærlega í einvíginu gegn Njarðvík.



