spot_img
HomeFréttirGunnar: Justin mætir með stórar körfur í lokin

Gunnar: Justin mætir með stórar körfur í lokin

Umferðin í Domino´s deild karla sem hefst í kvöld er af dýrari gerðinni. Þetta er fjórtánda umferðin þar sem hver stórleikurinn rekur annan. Fjórir leikir í kvöld og tveir annað kvöld. Þungavigtarpakki í gangi og þá dugir ekkert minna en að draga inn þungavigtarkappa en það er Gunnar Kristinn Sigurðsson fyrrum formaður KKD Stjörnunnar sem ætlar að rýna í slagi umferðarinnar. 
 
 
Leikir kvöldsins í 14. umferð
 
Stjarnan-Snæfell
 
Verður allt öðruvísi en leikurinn á sunnudag, Snæfellingar láta ekki rúlla yfir sig tvisvar í sömu vikunni. Einnig er klassískt að það lið sem vinni bikarleikinn tapi svo deildarleiknum, og öfugt. Þannig að þetta verður hörkuleikur, Snæfell mun leiða með nokkrum stigum stóran hluta leiksins, en þar sem ég er ekki hlutlaus í þessu máli þá spái ég að maður að nafni Justin Shouse komi með stórar körfur í lokin og klári leikinn fyrir Stjörnuna!
 
Grindavík-Þór Þorlákshöfn
(Lengjan:
 1,45 – 1,95)
 
Grindvíkingar eru enn að jafna sig eftir hasarinn á móti Keflavík á sunnudaginn. Þeir gætu því átt í erfiðleikum með spræka Þórsara og þetta verður hörkuleikur. Held þó að breidd Grindavíkur skili sér í fjórða leikhluta og þeir taka þennan leik með 5-10 stigum.
 
ÍR-Njarðvík
(Lengjan:
 1,60-1,75)
 
Njarðvík slátraði Skallagrímsmönnum í síðustu umferð og áttu ágætisleik í Keflavík í bikarnum í byrjun mánaðarins þrátt fyrir að tapa þar. ÍR er hins vegar í basli og ég held að Njarðvík taki útisigur hér. ÍR á líklega ekki nægilegt kjöt inni í teig til að ráða við tröllið Marcus Van og hann verður þeim líklega erfiður viðureignar, líkt og Elvar Friðriksson sem er í stuði þessa dagana. En ef leikmenn eins og Eric Palm, Nemanja Sovic og Hreggviður Magnússon eiga góðan leik getur allt gerst.
 
Skallagrímur-Fjölnir
 
Skallar hljóta að vilja rífa sig uppúr tapinu í Njarðvík í síðustu umferð og koma dýrvitlausir til leiks. Þeir eru erfiðir á heimavelli og ég held að þeir verði einu númeri of stórir fyrir Fjölni, með þá Paxel, Quaintance og Medlock í broddi fylkingar. Fjölnismenn eru með ungt og efnilegt lið sem gaman er að horfa á spila körfubolta en þurfa að ná meiri stöðugleika í sinn leik. Framtíðin er þeirra en nútíðin erfið.
 
Leikir föstudagsins í 14. umferð
 
KFÍ-Tindastóll
 
Ég tippa á útisigur hér líkt og hjá Njarðvíkingum í Breiðholtinu. Stólarnir eru í erfiðri stöðu í deildinni en með ágætan mannskap, bæði Íslendinga sem erlenda leikmenn. Sigurinn á móti KR gefur þeim sjálfstraust og nú er að duga eða drepast, annað hvort fara þeir að taka sigra og skríða frá botninum eða þá að þeir eru á leið niður í 1. deild. Reyndar eru KFÍ búnir að taka 2 útsigra í síðustu umferðum og því finnst kannski mörgum skrýtið að spá þeim tapi en ég hef bara einhverja tilfinningu fyrir sigri hjá Stólunum í þessum leik.
 
KR-Keflavík
 
Rosalegur leikur. Sjóðheitir Keflvíkingar eru í stuði þessa dagana en særðir eftir naumt tap í bikarnum. Ef KR-ingar ná að spila góða vörn á Magga og halda Baptist og Darrel Lewis í skefjum þá taka þeir þennan leik. Síðast þegar Keflavík spilaði í DHL höllinni dritaði Maggi nokkrum svaðalegum þristum ofan úr Árbænum og KR vill ekki að það endurtaki sig. Ég held að KR vinni en það verður tæpt og Helgi, Brynjar, Kristófer og kanarnir þeirra verða að eiga topp leik til að það gangi upp.
  
Fréttir
- Auglýsing -