,,Hann er mölbrotinn en ég vona að hann verði kominn með grímu eftir helgi,“ sagði Gunnar Sverrisson þjálfari ÍR við Karfan.is í dag um andlitsmeiðsli James Bartolotta sem í gær nefbrotnaði eftir samstuð í leik ÍR og Grindavíkur.
,,Jimmy hittir lækni á mánudag sem væntanlega brýtur þetta upp aftur,“ sagði Gunnar sem sótti leikmanninn á sjúkrahús í Keflavík að leik loknum í gærkvöldi. ,,Hann var mjög kvalinn en er þannig karakter að hann sagðist ætla sér að spila næsta leik,“ sagði Gunnar en Bartolotta hefur áður lent í svipuðu atviki. Lék þá með grímu í háskóla eftir andlitsmeiðsli.
Þá komst Sveinbjörn Claessen heldur ekki klakklaust frá leiknum í Grindavík: ,,Ég hugsa að Sveinbjörn verði ekki með á mánudag. Hann fór eitthvað illa í öðru hnénu í leiknum og er mjög bólginn.“