,,Það eru ekki margir sem fara að troða á þessum aldri,“ sagði Gunnar Einarsson léttur í leikslok eftir 83-89 sigur Keflavíkur á Njarðvík. Gunnar tók sig til og tróð í leiknum, seigur gamli og hann sýndi það oftar en bara með troðslunni í þessum leik að hann hefur séð tímana tvenna í boltanum. Gunnar átti t.d. risavaxinn þrist undir lok þriðja leikhluta sem var vel til þess fallinn að halda Njarðvíkingum fjarri þegar grænir voru sem mest að saxa á forskot Keflavíkur.
,,Mér er alveg sama hverjum við mætum í úrslitum því það eru kostir við báða mótherjana, við fáum heimaleikjaréttinn á móti Snæfell en styttri ferðalög ef við fáum KR. Jákvæðir punktar við báða mótherja,“ sagði Gunnar en annars skiptir þetta hann engu máli. ,,Við unnum tvo útisigra í Njarðvík í þessu einvígi og ef maður vill vinna þessa dollu verður maður alltaf að vinna einhverja útileiki,“ sagði Gunnar en varðandi undanúrslitaeinvígin og heimavöll liðanna, finnst honum það skrýtið að liðin séu að verja sína heimavelli jafn illa og raun ber vitni?
,,Við vorum ekki í miklu heimavallarveseni og sýndum það í leik þrjú að við áttum alveg möguleika en með KR og Snæfell þá vanmeta menn andstæðinginn kannski meira þegar þeir eru á heimavelli, halda að þeir þurfi að hafa minna fyrir hlutunum á sínum eigin heimavelli en maður þarf alltaf að koma klár í slaginn,“ sagði Gunnar sem gerði 12 stig og tók 5 fráköst fyrir Keflavík í Ljónagryfjunni í kvöld.
Hver er þín tilfinning fyrir heimavöllum í úrslitaseríunni, hvort sem það verður gegn KR eða Snæfell?
,,Ég hlakka til að fá heimsókn og fara í heimsókn, mér finnst það voðalega gaman,“ sagði Gunnar sem hefur farið fyrir sterku Keflavíkurliði í vetur og mikið mun á honum mæða í úrslitaeinvíginu sem hefst snögglega eftir oddaleik KR og Snæfells á fimmtudag.



