spot_img
HomeFréttirGunnar Einarsson leikur sinn þrítugasta Evrópuleik

Gunnar Einarsson leikur sinn þrítugasta Evrópuleik

9:18

{mosimage}

Gunnar Einarsson leikur sinn þrítugasta Evrópuleik fyrir sitt félagslið þegar Keflavík tekur á móti sænska liðinu Norrköping í kvöld í Keflavík. Gunnar er fyrsti Íslendingurinn til að leika svo marga Evrópuleiki en á eftir honum koma félagar hans í Keflavíkurliðinu.

Gunnar lék sinn fyrsta Evrópuleik 15. september 1999 þegar hann lék með sameiginlegu liði Keflavíkur og Njarðvíkur undir merkjum ÍRB. Andstæðingar þeirra voru enska liðið London Leopards og sigraði ÍRB örugglega 111-75 og skoraði Gunnar 9 stig í leiknum. Gunnar lék 5 af leikjum ÍRB en eftir að Keflvíkingar hófu þátttöku undir eigin merkjum haustið 2003 hefur Gunnar leikið alla leiki liðsins og er því leikurinn í kvöld sá þrítugasti. Gunnar hefur mest skorað 28 stig í einum leik en það var árið 2004 í leik gegn Reims frá Frakklandi í leik á heimavelli sem vannst 93-73 en samtals hefur hann skorað 285 stig í þessum 29 leikjum.

Í þessum leikjum hefur Gunnar leikið víða um Evrópu eins og sjá má á meðfylgjandi korti. Madeira og Ovar í Portúgal, Hyeres, Dijon og Reims í Frakklandi, London í Englandi, Fribourg í Sviss, Århus í Danmörku, Riga í Lettlandi, Lappeenranta í Finnlandi og Novy Jicin eru allt borgir sem Gunnar hefur leikið í auk Reykjanesbæjar.

Næstir á eftir Gunnari í leikjafjölda eru Sverrir Þór Sverrisson með 25 leiki, þar af 2 með Snæfelli, Jón N. Hafsteinsson er með 24, Magnús Þór Gunnarsson 23 og Helgi Jónas Guðfinsson 23 fyrir Grindavík, Antwerpen frá Hollandi og Ieper frá Belgíu. Þá er Arnar Freyr Jónsson kominn með 20 leiki.

Karfan.is náði tali af Gunnari og laggði fyrir hann nokkrar spurningar sem hann svaraði samviskusamlega.

Segðu okkur aðeins frá fyrsta leiknum, þ.e. gegn London Leopards?
Jájá þetta var fyrsti Evrópuleikurinn í sameiginlegu liði Keflavíkur og Njarðvíkur, við rúlluðum yfir þá með skotsýningu! Þeir vanmátu okkur líkt og flest lið hafa gert hingað til í þessari Evrópukeppni.

Hver var munurinn á að leik fyrir ÍRB og svo Keflavík?
Breytingn er náttúrulega að núna erum við undir formerkjum Keflavíkur og 12 keflvíkingar sem skipa öll sætinn, enda var ÍRB liðið frekar skrýtið að vera að æfa með Njarðvík einn daginn og vera með þeim í liði, en svo daginn eftir að keppa við þá í deildinni og hitta þá svo á æfingu daginn eftir :S.

Hver er eftirminnilegasti leikurinn?
Leikurinn sem stendur uppúr er viðureignin á móti Riga frá Lettlandi, við þurftum að vinna þá með 18 til að eiga vinna innbyrðis viðureignina gerðum enn betur og þetta endaði í 31stigi.

Eftirminnilegir andstæðingar?
Það er án efa þegar við unnum Dijon, franska liðið heima og þeir fóru strax á svaka púl æfingu eftir leikinn!

Þú hefur spilað útileikina í Englandi, Portúgal, Frakklandi, Danmörku, Sviss, Lettlandi og Tékklandi. Hvar hefur verið skemmtilegast að koma?
Eftir þessar ferðir er óhætt að segja það að maður sé kominn með nóg að því að milllilenda og þurfa að eyða deginum í London, enda var það orðið þannig að við tókum okkur nokkrir saman og fórum í bíó frekar en að fara niður á Oxford stræti! En maður á eftir að sakna því að fara til Madeira (Portúgal) og komast í sólina og hitann þar.

Verður Gunnar Einarsson í Evrópukeppninni næsta vetur?
Já, þetta er orðin hluti af tímabilinu hjá okkur þannig að ég sé ekki fram á það að við förum að breyta eitthvað til og hætta að keppa Evrópukeppninni enda mjög skemmtileg stemmning í kringum leikina.

Við þökkum Gunnari fyrir viðtalið og óskum honum góðs gengis í þrítugasta leiknum og í framhaldinu.

runar@mikkivefur.is

Kort: google.com með viðbótum gerðum af karfan.is

Fréttir
- Auglýsing -