spot_img
HomeFréttirGullæði í Hólminum!

Gullæði í Hólminum!

 
Fyrsti Íslandsmeistaratitil Snæfells er kominn í hús! Gullkálfurinn Ingi Þór Steinþórsson hefur farið mikinn á sínu fyrsta ári sem þjálfari Hólmara og splæsti í eitt stykki fullt hús. Íslandsmeistaratitill og Subwaybikarmeistaratitill og því óhætt að segja að gullæði hafi gripið um sig í Hólminum. Snæfell rúllaði upp oddaleiknum gegn Keflavík 69-105 og snemma var ljóst í hvað stefndi. Sex leikmenn Snæfells gerðu 10 stig eða meira í leiknum en Urule Igbavboa og Sverrir Þór Sverrisson voru einu Keflvíkingarnir sem sýndu sitt rétta andlit.
Snæfell setti niður sjö fyrstu þriggja stiga skotin sín í leiknum og voru fun heitir, þeir voru með betri skotnýtingu, fleiri fráköst, fleiri stoðsendingar og hreinlega betri á öllum sviðum. Manna sterkastur var þó miðherjinn öflugi Hlynur Elías Bæringsson sem gerði 21 stig, tók 15 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
 
Snæfell byrjaði leikinn 7-0 áður en Gunnar Einarsson gerði fyrstu stig heimamanna. Hólmarar komust svo í 2-12 en þá tók Guðjón Skúlason leikhlé fyrir sína menn í Keflavík. Leikhléið hafði lítið að segja því Snæfellingar voru mættir, og það í öllu sínu veldi.
 
Emil Þór Jóhannsson lék eins og sá er valdið hefur í upphafi leiks og brunaði í gegnum Keflavíkurvörnina eins og ekkert væri. Keflvíkingar fóru ekki að taka við sér fyrr en Sverrir Þór Sverrisson kom inn á völlinn og þá glitti smávegis í vígtennur heimamanna en Hólmarar leiddu 19-37 að loknum upphafsleikhlutanum, ótrúlegar tölur í Toyota-höllinni.
 
Í öðrum leikhluta hitnaði nokkuð í kolunum og Hlynur Bæringsson fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu í klafsi við Jón N. Hafsteinsson. Hólmarar sátu þó enn við kjötkatlana, sama hvað Keflvíkingar reyndu, og leiddu í hálfleik 30-56.
 
Emil Þór Jóhannsson var kominn með 14 stig hjá Snæfell í leikhléi en Urule Igbavboa var með 8 hjá Keflavík. Varnarleikur heimamanna í Keflavík var í molum í fyrri hálfleik en að sama skapi skal það tekið fram að hittni Hólmara var lyginni líkust og á þannig kvöldum geta þéttustu varnir verið máttlitlar.
 
Urule var sprækur hjá heimamönnum í upphafi síðari hálfleiks og framan af voru Keflvíkingar að herða róðurinn. Eftir fjögurra mínútna leik í síðari hálfleik náði Hörður Axel Vilhjálmsson loks að koma niður fyrsta þrist leiksins fyrir Keflvíkinga og minnkaði muninn í 43-64. Adam var þó ekki lengi í paradís því Jón Ó. Jónsson svaraði að bragði fyrir Hólmara með öðrum þrist og staðan 43-67. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 54-77 fyrir Snæfell og fátt annað en kraftaverk gat bjargað Keflavík úr þessari klípu.
 
Rétt rúmar fjórar mínútur voru til leiksloka þegar bæði áhangendur og leikmenn Snæfells áttuðu sig á því að Keflvík myndi ekki komast nærri. Sú varð raunin og lokatölur urðu 69-105 þar sem bæði Ingi Þór og Guðjón Skúlason, þjálfarar liðanna, leyfðu leikmönnum að klára leikinn sem hafa ekki haft sig mikið í frammi í þessu einvígi.
 
Gríðarleg fagnaðarlæti gestanna brutust út í leikslok og langþráður Íslandsmeistaratitill er nú kominn í Hólminn og maðurinn í brúnni, Ingi Þór Steinþórsson, gat brosað sínu breiðasta í leikslok. Allt ætlaði svo vitlaust að verða þegar Hlynur Bæringsson lyfti titlinum á loft enda sá fyrsti hjá leikmanninum sem vafalítið hefur verið besti leikmaður deildarinnar þetta tímabilið.
 
Hlynur lauk leik með 21 stig, 15 fráköst og 6 stoðsendingar í liði Snæfells. Martins Berkis gerði 18 stig og tók 4 fráköst. Emil Þór Jóhannsson var með 17 stig og Jeb Ivey gerði 13. Þá var Jón Ólafur Jónsson með 12 stig og Pálmi Freyr Sigurgeirsson 10.
 
Urule Igbavboa var með 23 stig og 6 fráköst hjá Keflavík og næstur kom Sverrir Þór Sverrisson með 10 stig. Þessir tveir voru einu liðsmenn Keflavíkur með liðsmarki í kvöld, aðrir áttu afar dapran dag og munu vísast naga sig í handarbökin eitthvað fram eftir maímánuði sökum þessa.
 
 
Dómarar leiksins: Sigmundur Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson
 
Ljósmynd/ Jón Björn Ólafsson Ingi Þór Steinþórsson bauð upp á forláta Zoolander svip er hann hampaði þeim stóra í Keflavík.
Fréttir
- Auglýsing -