spot_img
HomeFréttirGulir grimmari í lokin - allur pakkinn í Röstinni!

Gulir grimmari í lokin – allur pakkinn í Röstinni!

Deildarmeistarar Grindavíkur tóku í kvöld 1-0 forystu gegn Þór Þorlákshöfn í úrslitarimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. Þessi fyrsti leikur liðanna bauð upp á allan pakkann, glæsileg tilþrif, hraða og fyrst og fremst mikla spennu. Fullkomið veganesti inn í framhaldið. Lokatölur í Röstinni voru 93-89 Grindavík í vil þar sem Þór barði sig upp að hlið heimamanna eftir að hafa misst þá framúr sér en Grindvíkingar voru ólseigir á lokasprettinum og lönduðu sigri. J´Nathan Bullock gerði 29 stig og tók 9 fráköst fyrir gula í kvöld en hjá Þór voru þeir Blagoj Janev og Darrin Govens báðir með 17 stig.
Fyrir leik í kvöld fékk Teitur Örlygsson þakklætisvott frá Grindvíkingum, forláta blómvönd og knús frá Ólafi Ólafssyni eftir viðskipti þeirra félaga í Ásgarði. Lesa um það mál hér.
 
Sigurður Gunnar Þorsteinsson gaf tóninn í fyrsta leikhluta með skrímslatroðslu í traffík og eftir það var ekki aftur snúið. Stigunum hreinlega rigndi og tvö varnarsinnuð lið enduðu á því að gera samtals 55 stig í þessum fyrsta leikhluta og Grindvíkingar brenndu ekki af skoti fyrstu 16 stigin sín í leiknum. Benedikt Guðmundsson tók leikhlé fyrir Þór þegar Grindvíkingar komust í 16-6 en svellkaldir gestirnir úr Þorlákshöfn skelltu niður fjórum þristum í röð og jöfnuðu leikinn í 18-18. Hlutirnir gerðust hratt, Grindvíkingar slitu sig þó frá og leiddu 29-26 að loknum fyrsta leikhluta með þriggja stiga körfu frá Jóhanni Árna.
 
Grindavíkurvörnin tók til starfa í öðrum leikhluta og gestirnir skoruðu ekki stig fyrstu þrjár mínútur leikhlutans og heimamenn komust í 33-26 fyrir vikið. Þór var 4 af 8 í þriggja stiga eftir fyrsta leikhluta en 6 af 20 í hálfleik og því fóru 2 af 12 niður í öðrum leikhluta á meðan Grindvíkingar, leiddir áfram af Watson, Bullock og Jóhanni, juku muninn jafnt og þétt. Í stöðunni 37-37 fór Grindavík af stað og hnoðaði í 13-3 syrpu og leiddu svo 56-44 í hálfleik.
 
Giordan Watson var með 14 stig og J´Nathan Bullock 13 stig í hálfleik hjá Grindavík en í liði Þórs var Darrin Govens með 12 stig og þeir Jospeh Henley og Darri Hilmarsson 7.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Grindavík: Tveggja 56,2%, þriggja 83,3% og víti 55,5%
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 50%, þriggja 30% og víti 100%
 
Bullock opnaði þriðja leikhluta fyrir Grindavík með þriggja stiga körfu og staðan 59-44 fyrir heimamenn í gulu. Grindvíkingar fóru reyndar í 7-2 dembu og Þórsarar skiptu yfir í svæðisvörn. Hægt og bítandi tókst gestunum að hægja á heimamönnum en að sama skapi voru þeir lítið að uppskera í sóknarleiknum uns Blagoj Janev henti niður tveimur þristum í röð og minnkaði muninn í 66-59. J´Nathan Bullock bauð svo upp á tilþrif leiksins á hinum enda vallarins er hann fór inn endalínuna og tróð að tröllasið með látum. Þorleifur Ólafsson lokaði svo leikhlutanum með þrist fyrir Grindavík sem leiddu 75-65 fyrir fjórða og síðasta leikhluta en Þór vann þriðja leikhluta 19-21.
 
Stigin komu á færibandi í upphafi fjórða leikhluta og gestirnir í Þór ætluðu ekki að láta stinga sig af heldur minnkuðu muninn í 86-80 þegar fjórði var hálfnaður. Baldur Þór Ragnarsson ,,Dirkaði" sig í gang með stökkskoti af öðrum fæti úr jafnvægi, eitthvað sem Dirk Nowitzki hefur gert að listgrein. Baldur minnkaði þá muninn í 86-84 og um þrjár mínútur til leiksloka.
 
Þórsarar héldu sig við svæðisvörnina, hún hægði á gulum enda gerðu þeir 56 stig í fyrri hálfleik gegn maður á mann vörn Þórs en aðeins 37 stig í síðari hálfleik.
 
Tveir stórustráka þristar komu frá Bullock og Guðmundi Jónssyni og staðan 91-89 fyrir Grindavík. Henley fékk dæmda á sig sóknarvillu þegar mínúta var til leiksloka og næsta Grindavíkursókn vildi ekki niður. Guðmundur Jónsson reyndi þrist þegar 11 sekúndur voru til leiksloka og hann vildi heldur ekki niður. Bullock tók þá svakalega stórt varnarfrákast og Þór varð að brjóta, skotrétturinn var ekki kominn og því urðu Þórsarar að brjóta á ný og þá á Jóhanni Árna. Jóhann fékk tvö víti sem vildu ekki niður en gestirnir stigu ekki nægilega vel út og eftir boltabaráttu í frákastinu var Grindavík dæmdur boltinn. Þór braut strax á Bullock sem setti niður bæði vítin og gerði þar með síðstu stig leiksins.
 
Bráðfjörugur þessi fyrsti leikur liðanna, tilþrifin komu á færibandi og mun meira skorað en margir gerðu ráð fyrir enda tvö sterkustu varnarlið landsins að mætast í þessu úrslitaeinvígi. Stuðningsmenn Grindavíkur létu Græna drekann hafa vel fyrir hlutunum í kvöld og væri ekki ósanngjarnt að segja að sigur hafi unnist hjá gulum bæði á parketinu og í stúkunni. Ryan Pettinella kom með sterkar rispur hjá heimamönnum og Grindavík átti frákastabaráttuna 42-33. Bullock reyndist besti maðurinn hjá Grindavík með 29 stig og 9 fráköst en þeir Watson og Jóhann Árni lögðu einnig myndarlega í púkkið og þeir Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Þorleifur létu einnig vel til sín taka. Govens og Janev fóru fyrir Þór í kvöld, báðir með 17 stig og þeir Henley og Guðmundur gerðu báðir 15.
 
Það ætti enginn að láta sig vanta í Icelandic Glacial Höllina næsta fimmtudag þegar liðin mætast öðru sinni enda var stemmningin mögnuð í Röstinni í kvöld og ljóst að stórbrotið einvígi er framundan.
 
Heildarskor:
 
Grindavík: J’Nathan Bullock 29/9 fráköst, Giordan Watson 16/4 fráköst/13 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 14, Þorleifur Ólafsson 12, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 10/6 fráköst, Ryan Pettinella 8/6 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 4/4 fráköst, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Ármann Vilbergsson 0.
 
Þór Þorlákshöfn: Darrin Govens 17/7 fráköst/8 stoðsendingar, Blagoj Janev 17/4 fráköst, Joseph Henley 15/9 fráköst, Guðmundur Jónsson 15, Grétar Ingi Erlendsson 11, Darri Hilmarsson 9/5 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 5/6 stoðsendingar, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Emil Karel Einarsson 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0.
 
Skotnýting liðanna í leiknum:
Grindavík: Tveggja 54,7%, þriggja 50% og víti 53,5%
Þór Þorlákshöfn: Tveggja 50%, þriggja 37,1% og víti 75%
 
Mynd og umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -