spot_img
HomeFréttirGulir fara glaðir í jólafríið

Gulir fara glaðir í jólafríið

Grindvíkingar og Haukar hituðu upp fyrir leik kvöldsins á mánudagskvöldið síðastliðið í bikarkeppninni. Nú var komið að deildarkeppninni í síðasta leik 11. umferðar og jafnframt ársins. Liðin sitja hlið við hlið í ,,einskis manns landinu“ í deildinni, sætum 9 og 10. Bæði lið hafa orðið fyrir ýmsum náttúrulegum skakkaföllum það sem af er vetri svo búast mátti við grimmri baráttu um stigin tvö…eða hvað segir Kúlan?

Kúlan: ,,Þegar sömu lið mætast í bikar og deild í sömu viku splittast sigrarnir! Þetta vita allir. 80-88 sigur Hauka!“

Byrjunarlið

Grindavík: Basile, Breki, Óli, Mortensen, Kane

Haukar: Pitts, Love, Daníel, Osku, Hugi

Gangur leiksins

Heimamenn byrjuðu betur í leiknum og leiddu 17-10 eftir 5 mínútna leik. Þeir hótuðu skömmu síðar að stinga af og leiddu 22-12. Grindvíkingar fóru hins vegar illa að ráði sínu síðustu mínútur leikhlutans, tóku illa ígrundaðar ákvarðanir sóknarlega og gestirnir nýttu sér það vel. Eftir 10 mínútna leik var enginn munur, 25-24.

Það hægðist svolítið á stigaskorinu í öðrum leikhluta. Heimamenn kólnuðu snögglega fyrir utan en hinum megin var það kannski frambærilegri varnarleikur sem hægði á gestunum undir körfunni. Pitts kom gestunum yfir 27-29 snemma í leikhlutanum og liðin skiptust svo ítrekað á að leiða. Í hálfleik sat við sama heygarðshornið, Grindavík með einu stigi meira, 44-43. Stigaskorið dreifðist nokkur vel hjá báðum liðum, 8 voru búnir að skora fyrir Hauka snemma í leiknum og 7 komnir á blað hjá heimamönnum í hálfleik.

Kane spilaði ekkert í seinni hálfleik vegna meiðsla og setti heilt eitt stig í leiknum. Það virtist hins vegar ekki hrjá heimamenn neitt og þeir byrjuðu mun betur í síðari hálfleik. Um miðjan leikhlutann leiddu Grindjánar 53-45 og Maté blés til leikhlés og heimtaði meiri orku frá sínum mönnum. Það hafði ekkert að segja, Haukar voru í bölvuðu basli sóknarlega gegn talsvert aggresívari og betri vörn heimamanna en í fyrri hálfleik. Mortensen setti stöðuna í 64-49 þegar 1:30 var eftir af leikhlutanum en gestirnir klóruðu í bakkann og munurinn 10 stig eftir þrjá leikhluta, 67-57.

Tómas Orri gaf gestunum smá vítamínssprautu í byrjun fjórða leikhluta og smellti niður tveimur þristum í röð og minnkaði muninn í 67-62. Kristófer Breki svaraði þá bara fyrir heimamenn í sömu mynt. Um miðjan leikhlutann voru heimamenn enn með um 10 stiga forskot og það barst fnykur af vonleysi og stemmningsleysi frá Hafnfirðingum. Ekki bætti úr skák að Sigvaldi fór af velli í þriðja leikhluta með 5 villur og Love fór sömu leið á þessum tímapunkti í leiknum. Valur Orri haskaði sínum mönnum í mark með tveimur fögrum þristum á næstu mínútum og setti stöðuna í 83-66. Aðeins þrjár mínútur eftir af leiknum og nákvæmlega enginn i húsinu sá gestina brúa það bil. Eftir eina og hálfa ruslamínútu lauk leik með nokkuð öruggum og góðum sigri Grindvíkinga, 89-75.

Menn leiksins

Kristófer Breki og Valur Orri fá að vera fremstir í flokki í þessum lið að þessu sinni. Breki setti 16 stig, 4/8 í þristum, tók 4 fráköst og spilaði fantavel varnarlega. Valur kom inn af bekknum og fyllti vel á tölfræðiblaðið, setti 11 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. 

Pitts var atkvæðamestur í annars frekar döpru Haukaliði, setti 16 stig og gaf 4 stoðsendingar.

Kjarninn

Grindvíkingar enda árið á jákvæðum nótum með tveimur góðum sigrum á Haukum. Valur Orri er farinn að sýna sitt rétta andlit og Breki virðist alltaf vera að bæta sinn leik hægt og bítandi. Það verður spennandi að sjá hvernig liðið mun plumma sig á nýju ári.

Það er þrumuský yfir Völlunum. Óhætt er að segja að örlaganornirnar hafi ekki beint verið að dansa við Maté og Haukaliðið á þessu ári en eins og kannski einhverjir muna settu meiðsli mjög stórt strik í reikninginn fyrir Hauka í úrslitakeppninni á síðasta tímabili. Nú er ráð að muna að körfubolti er bara leikur og vonandi munu Vallarbúar njóta hátíðanna þrátt fyrir allt.

Fréttir
- Auglýsing -