22:24
{mosimage}
Guðni Valentínusson sem leikið hefur í Danmörku í vetur gekk nú um helgina frá eins árs samningi við dönsku meistarana í Bakken bears. Samhliða því að leika með Bakken mun Guðni stunda nám í Árósaháskóla.
Karfan.is heyrði í Guðna og spurði hvernig honum litist á að vera kominn á samning hjá félagi sem hefur orðið meistari þrjú síðastliðin ár.
„Ég er mjög ánægður að hafa samið við Bakken Bears . Ég hlakka mikið til að fá að vinna með þjálfurunum hjá Bakken. Það er mikil áskorun að fá það tækifæri að fá að spila með besta og stærsta klúbbi í Danmerkur sem er mjög spennandi verkefni. Ég sem ætlaði ekki einu sinni að spila körfubolta í vetur því ég ætlaði að hvíla mig á körfunni og prófa eitthvað nýtt. Þannig að ég sé alls ekki eftir því að hafa spilað með ABF í vetur og Í D – League með Bakken. Mínar væntingar eru að fá að geta bætt mig enn meira sem leikmaður og vonandi að vera einn af aðalmönnum Bakken Bears í framtíðinni.“
Einhverjar breytingar verða á leikmannahóp Bakken en stóru mennirnir Søren Ege og Jonas Buur ætla að leggja skóna á hilluna og þá er Chris Christoffersen að spila í Ástralíu í sumar og óvíst hvort hann kemur aftur til Árósa.
Eins og fyrr segir er Bakken danskur meistari, lagði Svendborg í úrslitum í vor 4-3 og hafði ekki tapað leik í úrslitakeppni í 3 ár þar til þeir töpuðu leik þrjú gegn Svendborg í úrslitunum núna.
Með Bakken spilar Michael Thuesen sem lék með Guðna í Snæfelli og þá var Eric Bell þar í vetur en hann hóf tímabilið með Skallagrím.
Mynd: Christina Ipsen



