spot_img
HomeFréttirGuðmundur Oddsson: körfuknattleikshreyfingin að éta sig innan frá

Guðmundur Oddsson: körfuknattleikshreyfingin að éta sig innan frá

14:00

{mosimage}

Guðmundur Ævar Oddsson er mikill Þórsari á Akureyri og hefur siglt með félagi sínu í gegnum súrt og sætt. Þegar liðið varð að draga sig úr úrvalsdeild og fara í 2. deildina tók hann að sér þjálfun og fylgdi félaginu upp í úrvalsdeild aftur. Í vetur hefur Guðmundur þó verið víðsfjarri og okkur langaði að forvitnast hvar hann væri og hvað hann væri að gera. Eins hvort hann væri ekki að fylgjast með boltanum hér heima.

Hvernig er að vera búinn að vera heilt tímabil í burtu frá því sem maður getur kallað að hafi verið líf þitt og yndi undanfarin ár, Þórsurum?
Þetta er öðruvísi, ég get sagt ykkur það! Það var erfitt að slíta sig frá þessu dæmi en nú hef ég komist upp á lagið með það að fylgjast með úr fjarlægð og vera ekki með puttana í hinu og þessu sem snertir körfuknattleiksdeildina. Hinsvegar, klæjar manni oft í fingurna og þá ekki síst þegar maður fylgist stressaður með netlýsingum frá leikjum strákanna. Það er annars mjög ánægjulegt að sjá hversu öflugt starf núverandi stjórn, þjálfarar og aðrir á vegum deildarinnar, eru að vinna.

Hvað ertu nákvæmlega að gera og hvar ertu?
Ég er í framhaldsnámi í félagsfræði við University of Missouri. Ég og fjölskyldan búum í borginni, Columbia, sem er sannkallaður háskólaborg og er oft kölluð „College Town USA". Það skemmir ekki fyrir að University of Missouri er mikill íþróttaskóli og fór t.a.m. allt á annan endann hér fyrr í vetur þegar lið skólans í amerískum fótbolta var metið það besta í öllum Bandaríkjunum . Körfuboltinn hérna er einnig öflugur og hef ég kíkt á nokkra hörkuleiki hjá karlaliðinu, Missouri Tigers, sem er í Big 12-deildinni.

Ertu eitthvað í körfubolta?
Það má varla segja það. Ég fer stöku sinnum í afþreyingarmiðstöð háskólans að spila „pick-up" leiki. Það gefst annars lítill tími til þess arna enda gríðarlega mikið að gera hjá mér í námi og aðstoðarkennslu auk þess sem maður reynir að standa sína plikt sem fjölskyldufaðir. Það er að vísu frekar grátlegt að geta ekki nýtt sér afþreyingarmiðstöðina sem skyldi, sem er sú flottasta í Bandaríkjunum samkvæmt Sports Illustrated. Þess má geta að þarna er að finna tíu parketlagða körfuboltavelli í fullri stærð, sem er talsvert öðruvísi aðstaða en maður hefur átt að venjast hingað til.

Fara Þórsarar í úrslitakeppnina?
Já, ég hef fulla trú á því.

Hvað finnst þér um umræðuna um erlenda leikmenn á Íslandi?
Fyrir mitt leyti er körfuknattleikshreyfingin að éta sig innan frá með algerri óráðsíu í málefnum erlendra leikmanna. Ef fram heldur sem horfir og meirihluti liða í efstu deild karla verður áfram skipaður þremur eða fleirum erlendum leikmönnum stefnir einfaldlega í algert óefni. Ég meina, hver í ósköpunum getur verið ánægður með núverandi ástand? Ekki eru það þjálfarar og því síður leikmenn, sem langflestir eru áhugamenn og eru í þessu ánægjunnar vegna. Þá eru stjórnarmenn fyrst og fremst að apa upp vitleysuna eftir hverjum öðrum. Þá eru ótaldir stuðningsmenn og bakhjarlar sem verða smám saman meira afhuga liðinu sínu. Mikilvægustu hlekkirnir í keðjunni eru, hinsvegar, yngri flokkarnir, þjálfarar og aðstandendur þeirra. Það er ekki hægt að ætlast til þess að drifkrafturinn þar á bæ verði sá sami þegar gulrótunum fækkar og án öflugs yngri flokka starfs er alveg eins hægt að loka sjoppunni. Mjög stór hluti af þessu grundvallarstarfi er unnið í sjálfboðavinnu og ef ánægja, hollusta og skyldurækni þessa hóps minnkar sökum firringar, hvað stendur þá eftir? Undir eðlilegum kringumstæðum er þetta samfelld heild en núverandi ástand grefur smám saman undan undirstöðunum. Í þessu ljósi er ekki úr vegi að spyrja þeirrar grundvallarspurningar, hvers vegna og fyrir hverja erum við að standa í þessu? Í hnotskurn þá er núverandi ástand aðför að körfuboltamenningunni á Íslandi, þ.e. menningunni sem að gerir íslenskan körfubolta að því sem hann er. Það er löngu kominn tími til þess að menn horfi á þetta mál í víðara samhengi og ekki síst þá til lengri tíma.

Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta mál snertir erlendu leikmennina sjálfa ekki nema að litlu leyti. Þetta snýst fyrst og fremst um íslenska leikmenn á öllum aldri og ekki síst leikmenn framtíðarinnar. Það er engum blöðum um það að fletta að erlendir leikmenn hafa auðgað körfuknattleikinn á Íslandi svo um munar. Hinsvegar, eins og núverandi ástand sýnir okkur verða menn að kunna sér hóf þegar kemur að innflutningi á erlendum leikmönnum, rétt eins og í öðru. Svo maður grípi til hagfræðinnar þá er hér að verki „the law of diminishing returns". Í grófum dráttum á ég við að sá ábati sem lið, félag og körfuknattleikshreyfingin í heild fær með hverjum erlendum leikmanni, til viðbótar við þá sem fyrir eru, fer stigminnkandi og sé fjöldinn of mikill tapa allir. Með  öðrum orðum er núverandi ástand einfaldlega „of mikið af hinu góða". Helst vildi ég sjá einhverra útgáfu af „norsku/rússnesku reglunni" þar sem lið væru skikkuð til þess að hafa fjóra íslenska leikmenn inn á í einu. Hinsvegar, tel ég líklegast að menn fari milliveginn. Sem landsbyggðarmaður segi ég ennfremur fullum fetum að takmörkun á fjölda erlendra leikmanna muni gagnast landsbyggðarliðum til lengri tíma litið. Það að fylla lið af erlendum leikmönnum er og verður aldrei meira heldur en skammtímalausn. Hvað varðar gæði körfuboltans segi ég að félögin verða að vera tilbúin til þess að taka eitt skref aftur á bak til þess að körfuknattleikshreyfingin sem heild geti tekið tvö, þrjú og fjögur skref áfram.

Að lokum, þá tala sumir um að takmörkun á fjölda erlendra leikmanna sé merki um metnaðarleysi. Ég spyr á móti, hvað varð um metnaðinn að standa á eigin fótum og standa og falla á eigin verðleikum?

[email protected]

Mynd: Þórir Tryggvason

Fréttir
- Auglýsing -