Guðmundur Bragason, Grindvíkingur og fyrrum landsliðsmiðherji, á von á nágrannaslag af bestu gerð í kvöld þegar Keflavík og Njarðvík mætast í Domino´s deild karla. Guðmundur segir að þó rimma Smith og Craion gæti orðið öflug muni það þó skipta sköpum hvor bakvarðasveitin detti í gírinn.
Þetta hafði Guðmundur að segja um leikinn í kvöld:
Leikurinn í kvöld verður nágrannaslagur af bestu gerð. Njarðvík mun gera allt til að kvitta fyrir svekkjandi tap í heimaleik sínum í haust við Keflavík. Njarðvík hefur spilað skemmtilegan bolta í vetur þar sem öflug bakvarðasveit með Elfar og Loga er í fararbroddi. Sóknarleikurinn hefur breyst með tilkomu Tracy Smith en mér hefur fundist að jafnvægi milli bakvarða og hans sé ekki alveg náð ennþá. Smith er fjölhæfur og öflugur sóknarmaður en hann þarf að gefa boltann oftar tilbaka á menn í opnum skotum þegar hann er tvídekkaður. Ef þessi samvinna næst verður Njarðvík illráðanlegt það sem eftir líður veturs. Það er ánægjulegt að sjá hversu sterkir Ólafur Helgi og Maciej eru að koma eftir meiðsli og veikindi og þeir styrkja klárlega hópinn mikið.
Keflavík hefur spilað mjög vel í vetur en fullmikið svæðisvörn fyrir minn smekk. Ég hef á tilfinningunni að sterkari lið deildarinnar séu farinn að sjá betur veikleikanna í svæðisvörninni og því verði hún ekki eins áhrifarík í toppbaráttunni það sem eftir er vetrar. Craion og Lewis eru lykilmenn í Keflavíkurliðinu og hafa spilað vel í vetur. Þegar Gummi Jóns dettur í stuð er erfitt að eiga við þá og Njarðvík mega ekki láta það gerast ef þeir ætla að vinna í kvöld. Mig hlakkar mikið til að sjá baráttu Smith og Craion í kvöld en held þó að það sem skipti sköpum sé hvor bakvarðasveitin detti í gírinn.
Það er ómögulegt að spá um úrslit enda hnífjöfn lið þarna á ferð. Eigum við samt ekki að segja að Njarðvík taki þetta í framlengdum leik þar sem Tracy Smith sjái til þess að allir í Reykjanesbæ viti hver hann er!
Tengt efni:



