spot_img
HomeFréttirGuðjón: Tveir leikir eftir í þessu móti

Guðjón: Tveir leikir eftir í þessu móti

 
,,Við vorum ekki að frákasta nógu vel og Snæfell var að fá tvö til þrjú aukaskot og á meðan erum við að spila vörn allt of lengi,“ sagði Guðjón Skúlason þjálfari Keflavíkur í samtali við Karfan.is eftir 85-100 ósigur Keflavíkur gegn Snæfell í þriðju úrslitaviðureign liðanna. Snæfell leiðir nú einvígið 2-1.
Eftir um 17 mínútna leik í dag hafði Keflavík aðeins tekið þrjú þriggja stiga skot í leiknum, lagði Guðjón það fyrir að sínir menn myndu reyna eftir fremsta megni að sækja í teig þeirra Hólmara fremur en að skjóta fyrir utan?
 
,,Nei nei, ekkert svoleiðis. Þetta bara þróaðist svona, það skiptir ekki máli hvort skotin koma inni eða fyrir utan. Ég hef meiri áhyggjur af vörninni enda fáum við á okkur 100 stig á heimavelli og það er allt of mikið. Við erum ekki nægilega grimmir og þeir eru að koma líkamlega harðari í okkur og við erum að bakka af þeim og það er hlutur sem við þurfum að laga. Snæfell hafa einfaldlega verið grimmari undanfarið sem er svolítið sérstakt í ljósi þess að við höfum verið þekktir fyrir að vera harðir en nú erum við farnir að bakka of mikið. Það eru samt tveir leikir eftir í þessu móti, það er bara svoleiðis,“ sagði Guðjón harðákveðinn.
 
,,Við ætlum að fara vestur og ná okkur í einn leik í viðbót,“ sagði Guðjón sem fékk það vandasama verkefni að vefja Nick Bradford inn í Keflavíkurliðið eftir að ljóst var að Draelon Burns léki ekki meira með sökum meiðsla.
 
,,Ég þurfti ekkert að hafa áhyggjur af Nick fyrir þennan leik, það voru aðrir ekki að gera þá hluti í dag sem ég vildi og það er bara áhyggjuefni fyrir mig að það hafi verið vöntun í dag á ákveðnum póstum í liðinu en ég er samt sannfærður um að við náum tveimur leikjum í viðbót.“
 
Fréttir
- Auglýsing -