spot_img
HomeFréttirGuðjón: Hefur ekki áhrif á okkar undirbúning

Guðjón: Hefur ekki áhrif á okkar undirbúning

 
Eins og þegar hefur fram komið í dag mun Jeb Ivey klára leiktímabilið með Snæfell þar sem Sean Burton er meiddur. Karfan.is náði tali af Guðjóni Skúlasyni þjálfara Keflavíkur og ræddi við hann um stöðu mála hjá andstæðingunum úr Stykkishólmi og í herbúðum Keflavíkur. Guðjón sagði komu Jeb Ivey til Snæfells ekki hafa áhrif á undirbúning Keflavíkurliðsins fyrir leikinn annað kvöld.
,,Ég var búinn að heyra að eitthvað væri í gangi og annað væri í raun óeðlilegt að menn reyni eitthvað þar sem Burton er ekki í lagi. Eflaust myndi maður gera slíkt hið sama ef við værum í þessum sporum. Þetta hefur samt ekki áhrif á okkar undirbúning, það er sama hvort Burton, Ivey eða enginn verði með, við sjáum bara hvaða lið mætir og tökum því,“ sagði Guðjón en hefur þetta áhrif á einvígi liðanna í heild sinni?
 
,,Ég veit ekki hvort þetta muni hafa áhrif á einvígið, kannski er það bara slæmt fyrir Snæfell að missa sinn mann í meiðsli á þessum tíma. Hjá okkur hafa t.d. Þröstur og Draelon verið að glíma við meiðsli og á þessum tíma er þetta bara svona þegar álagið er hvað mest. Menn gera síðan bara það besta úr því sem þeir hafa og sjá hversu mikið hægt er að ná út úr hópnum hverju sinni. Okkar verkefni breytist í raun lítið við þessi tíðindi úr Stykkishólmi, við vitum alveg hvernig leikmaður Ivey er og það verður bara tekið á því þegar hann mætir og svo sjáum við hvað setur,“ sagði Guðjón en hvernig blasa þá reglurnar við honum, að lið geti skipt út könum á öllum tímum en aðrar reglur lúti að íslenskum- og öðrum Evrópuleikmönnum?
 
,,Ég er nokkuð hlynntur þessu og mér finnst reglan sanngjörn, að hægt sé að skipta þeim út hvenær sem er og skil að þessu sé öðruvísi farið með Evrópuleikmenn því þeir mega vera fleiri en einn í hverju liði. Annars mætti skoða þessi mál í heild sinni því það hefur ekki náðst sameiginleg niðurstaða í þessum efnum en að því sögðu tel ég umhverfið ásættanlegt eins og það er. Öðru máli gegnir svo um lið sem missa mjög góðan íslenskan leikmann í meiðsli á svona tímapunkti, þá ertu kannski í verri málum en svo er það líka misjafnt hvað lið leggja áherslur á í þessum efnum,“ sagði Guðjón en hvernig er andinn í Keflavíkurhópnum fyrir annað kvöld?
 
,,Hann er ágætur, þetta verður hörkuleikur og við leggjum þetta upp eins og síðast, það verður bara stríð eins og allir þessir leikir eiga að vera og við munum leggja allt í sölurnar. Það lið sem finnur sinn takt getur klárað leikinn annað kvöld. Býst við góðum leik gegn flottu liði Snæfell.“
 
Fréttir
- Auglýsing -