spot_img
HomeFréttirGrófur körfubolti á Íslandi

Grófur körfubolti á Íslandi

12:35
{mosimage}

(Susnara í leik gegn Hamri) 

Anthony Susnara, miðherji toppliðs Keflavíkur í Iceland Express-deild karla, tjáði sig um dvölina á Íslandi í viðtali við ástralska blaðið Parramatta á dögunum. „Ég bý á gamalli herstöð og það er svo mikið af skólakrökkum hér að það er eins og ég sé kominn aftur í háskóla," lýsir Susnara. Hann er sáttur með aðstæðurnar.  

„Þeir skildu allt eftir enda nýfarnir af herstöðinni og hér hef ég risastórt herbergi, ísskáp, tvo skápa, internet, hægindastól, sjónvarp og DVD-spilara þannig að ég er mjög ánægður," segir Susnara. Susnara hefur spilað vel en þó verið í skugga þeirra Bobby Walker og Tommy Johnson sem hafa slegið í gegn með Keflavíkurliðinu í vetur. Ástralinn, sem hefur króatískt vegabréf, er með 7,2 stig og 6,6 fráköst á þeim 19,4 mínútum sem hann hefur spilað í leik.  

„Ég þurfti að aðlagast körfuboltanum. Margir góðir skotmenn eru í deildinni en það er spilað fast og gróft," segir Susnara, sem sjálfur gefur ekkert eftir í boltanum en hann hefur fengið 36 villur í fyrstu níu leikjunum eða 4 villur að meðaltali í leik.  

„Íþróttahúsin eru lítil en áhorfendurnir láta vel í sér heyra og það eru notaðar trommur og lúðrar á pöllunum," segir Susnara, sem hefur greinilega ekki kynnst handboltaáhuga þjóðarinnar enda búsettur í Reykjanesbæ.  „Það er mikill áhugi á körfubolta í þessu litla landi og þetta er vinsælasta íþróttin fyrir utan fótbolta," segir Susnara sem kvartar yfir því að það sé dýrt að lifa á Íslandi.  

„Það er mjög dýrt að lifa hér þar sem flestir hlutir eru fluttir inn. Bensínlítrinn kostar um 2,20 dollara svo ég keyri ekki mikið og er auk þess orðinn afbragðskokkur," segir Susnara, sem hefur því æft sig í eldhúsinu í stað þess að eyða stórum fjárhæðum í að borða úti. Susnara var stigahæsti leikmaður Parramatta Wildcats í tvö ár og staðarblaðið hefur því grafið upp hvað fyrrverandi stjörnu­leik­maður Villikattanna er að gera hinum megin á hnettinum. 

Frétt úr Fréttablaðinu í dag, www.visir.is

Höfundur: Óskar Ófeigur Jónsson

Mynd: www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -