,,Get ekki sagt að það sé rosaleg reynsla í liðinu okkar núna en við fengum í kvöld sama blóðbragðið og við höfum fengið áður eins og t.d. í úrslitum svo það hjálpar til að klára svona leiki,” sagði Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir í samtali við Karfan.is eftir sigur KR á Njarðvík í Ljónagryfjunni í kvöld. Gróa fór mikinn í liði KR með 24 stig, 10 fráköst og 4 stolna bolta.
,,Það vantar samt reynslu í liðið okkar en hún kemur í svona leikjum,” sagði Gróa sem beðið hefur eftir því að fá stærra hlutverk en mikið mæðir á henni, Hildi Sigurðardóttur og Margréti Köru Sturludóttur í liði meistaranna. ,,Þetta verkefni lendir á einhverjum, ég er búin að bíða eftir því að fá stærra hlutverk og nú er það komið og maður verður bara að standa undir því,” sagði Gróa og henni leiðist ekki í Ljónagryfjunni.
,,Mér finnst gott að spila hérna enda hef ég ekki oft tapað hér en þetta Njarðvíkurlið er með því sterkara sem við höfum mætt og sýnir að deildin sé jöfn og það er gaman,” sagði Gróa en hvar liggur hugur liðsins, eru umræður um mögulega endurkomu Signýjar í lið KR eða vöntun á erlendum leikmanni eitthvað að trufla hópinn?
,,Þetta truflar mig ekki, þetta er liðið sem við erum með núna, þetta eru stelpurnar sem þurfa að vinna leikina og ef við getum bætt við okkur þá er það bara flott. Ég er ekki að bíða eftir einum eða neinum, þetta kemur allt í ljós,” sagði Gróa en hver er hugur KR liðsins til framhaldsins í deildinni?
,,Við stefnum aðallega að þvi að pússa okkur saman enda liðið mikið breytt og margir að spila sína fyrstu leiki í úrvalsdeild svo við hugsum fyrst um að vera í efri hlutanum og tökum svo bara einn leik í einu.”



