Gestir KFÍ í kvöld komu úr Njarðvík þaðan sem körfuboltahefðin er hvað mest. Njarðvíkingum hefur gengið misjafnlega í vetur en komu í þennan leik eftir tvo góða sigra gegn Stjörnunni og KR. Það var greinilegt að sjálfstraustið hafði ekkert laskast við þessa sigra og byrjuðu þeir ákafleg vel. Nigel Moore setti þrist eftir 4 sek leik og gaf þar með tóninn fyrir hvað koma skyldi. Fljótlega skildi á milli liðanna og eftir um 6 min leik var staðan orðin 10-23 fyrir Njarðvík. KFÍ náði aðeins að rétta sinn hlut áður en fyrsti leikhluti rann sitt skeið á enda og var staðan þá 22-30. Svo sem ekki öll sund lokuð enn og áhorfendur vonuðu það besta.
Staða KFÍ átti þó aðeins eftir að versna i öðrum leikhluta og unnu Njarðvíkingar hann 21-35. Það voru flestir að leika vel í liði gestanna en andleysi var yfir leik heimamanna. Í hálfleik var staðan því 31-58 og var björgunarsveitin Tindar kallaðir út til þess að leita að varnarleik KFÍ. Eftir leikhlé virtust KFÍ ætla að stöðva þessa blæðingu og náðu að vinna upp 5 stig, komust næst Njarðvík í stöðunni 70-85. Þar þraut þeim þó örindið og Njarðvíkingar settu aftur í fimmta gír. Í stuttu máli innsigluðu þeir sannfærandi 26 stiga sigur yfir andlausu liði KFÍ. Lokastaðan 93-119.
Um þennan leik má segja að Njarðvík virðist vera á mikilli siglingu og verða enginn happadráttur fyrir þá sem þurfa að mæta þeim í úrslitakeppninni. Léku skynsamlegan og flottan liðsbolta, eins og hefur reyndar einkennt þessa stráka frá því í yngri flokkum Njarðvíkur. Nigel Moore hafði algjöra yfirburði í kvöld og skipti engu hvern KFÍ setti honum til höfuðs, hann fann alltaf leið. Ólafur Helgi Jónsson er orðinn fullgildur leikmaður sem átti frábært kvöld sem og Elvar Már. Ekki verður þessi umfjöllun fullkomin án þess að nefna Friðrik nokkurn Stefánsson á nafn. Hann hefur stundum skorað meira á Jakanum, en innkoma hans gladdi áhorfendur á Ísafirði og gamla félaga nú sem endranær.
KFÍ verður að fara að byrja sína leiki betur, annars grafa þeir sig alltaf ofan í holu sem erfitt er að komast upp úr með einhverjum látum í þriðja leikhluta. Varnarleikurinn var ekki góður og þeir voru ekki alveg að tengja í sókninni að þessu sinni. Vissulega er erfitt fyrir þá að spila á föstudegi og svo aftur á sunnudegi sömu helgina, ef það er haft í huga að álagið dreifist ekki miki. Fimm leikmenn eru með yfir 30 min í leiknum og því skiljanlegt að liðið nái ekki beinlínis að blómstra í öllum leikjum. Damier Pitts með enn einn stórleikinn 45 stig og 46 framlagsstig, eina sem hægt er að gagnrýna við það er að enginn má sín við margnum og fleiri þurfa að stiga upp í sóknarleiknum.
119 stig frá Njarðvík í kvöld er þriðja hæsta stigaskorið í deildarleik þetta tímabilið, mest hafa Þórsarar skorað í einum leik í vetur þegar þeir settu 128 stig á KFÍ og Grindvíkingar gerðu 122 stig gegn Fjölni.
KFÍ-Njarðvík 93-119 (22-30, 21-35, 28-23, 22-31)
KFÍ: Damier Erik Pitts 45/8 fráköst/8 stoðsendingar, Tyrone Lorenzo Bradshaw 15/6 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 12/14 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 8/5 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 6, Hlynur Hreinsson 3, Guðmundur Jóhann Guðmundsson 2, Stefán Diegó Garcia 2, Haukur Hreinsson 0, Óskar Kristjánsson 0, Björgvin Snævar Sigurðsson 0, Hákon Ari Halldórsson 0.
Njarðvík: Nigel Moore 34/8 fráköst/6 stoðsendingar, Elvar Már Friðriksson 20, Ólafur Helgi Jónsson 16, Marcus Van 15/10 fráköst, Ágúst Orrason 13, Maciej Stanislav Baginski 10, Oddur Birnir Pétursson 4, Friðrik E. Stefánsson 3/7 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 2, Kristján Rúnar Sigurðsson 2, Brynjar Þór Guðnason 0, Óli Ragnar Alexandersson 0.
Dómarar: Einar Þ. Skarphéðinsson, Jóhann Guðmundsson og Jón Bender.
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Benedikt Hermannsson



