spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar vörðu Mustad-höllina í fyrsta leik

Grindvíkingar vörðu Mustad-höllina í fyrsta leik

Grindvíkingar vörðu heimavallarréttinn í kvöld með góðum sigri á Þór, 99-85. Grindavík var alltaf skrefi á undan gestunum frá Þorlákshöfn en náðu þó ekki að hrista þá almennilega af sér fyrr en undir lokin.

Fyrir leik
Grindvíkingar komu sennilega öllum á óvart í vetur en fyrir mót voru flestar spár á þá leið að liðið yrði í botnbaráttunni. Annað kom þó á daginn og munaði þar ekki síst um liðstyrkinn í Degi Kár Jónssyni sem hefur reynst liðinu drjúgur í vetur. Liðin skiptu með sér einvígum vetrarins í deildinni en Þór sló Grindavík út úr 4-liða úrslitum bikarins og höfðu Grindvíkingar því harma að hefna. Framundan var Suðurstrandarslagur af bestu gerð og ljóst að ekkert yrði gefið eftir.

Kjarninn
Leikurinn var nokkuð jafn en Grindavík byrjaði betur. Ómar Sævarsson fékk sér sennilega aukaskammt af rúsínum út á hafragrautinn sinn í morgun en hann fór mikinn í upphafi leiks og skoraði 9 af fyrstu 18 stigum Grindavíkur. Heimamenn sóttu mikið á körfuna og nýttu sér áberandi miðherjavöntun Þórsara. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 28-15 og Grindvíkingar virtust líklegir til að stinga af. Þórsarar voru þó ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát og minnkuðu muninn fyrir hálfleik í 8 stig, 43-35. Þeir komust þó aldrei nær en 5 stig og í hvert skipti sem þeir gerðu sig líklega til að ná Grindvíkingum svöruðu heimamenn með áhlaupi og náði þægilegu forskoti á ný.

Þáttaskil
Í stöðunni 72-63 þegar um 8 mínútur voru eftir af leiknum komu þrjár þriggjastiga neglur í röð frá Grindvíkingum. Tvær frá Lewis Clinch og ein frá Ólafi Ólafssyni. Allar körfurnar komu úr frekar dauflegum sóknum og tvær úr frekar erfiðum skotum en öll fóru þau rakleitt ofan í við mikinn fögnuð heimamanna og staðn orðin 81-68. Þórsarar hengdu þó ekki haus og settu nokkra góða þrista sjálfir en munurinn var orðinn of mikill.

Atvikið
Það voru nokkur atvik sem undirritaður var viss um að myndu setja mark sitt á leikinn og snéru þau fyrst og fremst að dómgæslunni. Dómararnir létu leikinn flæða og dæmdu ekki mikið en fyrir vikið varð línan í dómgæslunni nokkuð óljós. Augljós brot voru látin ótalin meðan nokkur brot þar sem lítil sem engin snerting virtist eiga sér stað voru kölluð. Einar Árni Jóhannsson þjálfari Þórs var sérstaklega ósáttur þegar dæmd var sóknarvilla á Tobin Carberry og uppskar tæknivillu að launum. Báðir þjálfarar virtust láta dómgæsluna fara í taugarnar á sér en hún hallaði þó sennilega á hvorugt lið þegar allt er talið saman.

Hetjan
Lewis Clinch Jr steig upp í 4. leikhluta og tók að sér að sigla skútunni örugglega í heimahöfn. Hann setti tvo stóra þrista og lokaði svo leiknum á laufléttri 360° troðslu bara sisona. Slíkar troðslur eru sennilega teljandi á fingrum annarrar handar á hverju tímabili í Domino's deildinni. Lewis var stigahæstur heimamanna með 23 stig. Þorleifur Ólafsson virtist hafa tekið eins og 5 ár af klukkunni fyrir leik og smellti í 20 stig. Hann er sennilega í ísbaði þegar þetta er skrifað.

Sókn vinnur leiki, vörn vinnur titla
Tobin Carberry er einstakur sóknarmaður sem virðist oft geta skorað að vild og nánast úr hvaða færi sem er. Grindvíkingar spiluðu stífa vörn á hann allan leikinn og létu hann hafi mikið fyrir flestum skotum. Þeir héldu honum stigalausum fyrstu 5 mínútur fjórða leikhluta og munaði um minna fyrir gestina. Varnarleikur Grindvíkinga var heilt yfir sterkur í kvöld, allir leikmenn á tánum, hraðar skiptingar og ekkert gefið eftir. Ef þeir halda sama dampi í næstu leikjum eru þeir til alls líklegir í þessari úrslitakeppni.

Tölfræðin lýgur ekki
Grindvíkingar mættu mjög ákveðnir til leiks, unnu nánast alla 50/50 bolta og fóru ótrúlega langt á baráttunni. Frákastabaráttan endaði 50-30 Grindvíkingum í vil og þar af voru 11 sóknarfráköst sem enduðu flest með körfu. Spennustigið virtist ekki vera sérlega hátt hjá Grindvíkingum sem voru í senn bæði afslappir en á sama tíma fullir af orku og þeir einfaldlega keyrðu yfir gestina á orku, baráttu og liðsheild.

Tölfræði leiks
Myndasafn

 

Umfjöllun / Siggeir F. Ævarsson

Myndir, viðtöl / SBS

Fréttir
- Auglýsing -