Grindavík lagði Þór í Þorlákshöfn í kvöld í 11. umferð Bónus deildar karla, 94-106.
Eftir leikinn er Grindavík í efsta sæti deildarinnar með 20 stig á meðan Þór er í 11. sætinu með 6 stig.
Leikur kvöldsins var nokkuð jafn og spennandi lengi framan af. Þór leiddi með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta og sex stigum þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.
Heimamenn í Þór eru svo áfram skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiksins, en Grindvíkingar þó ekki langt undan. Munurinn aðeins fjögur stig Þór í vil fyrir lokaleikhlutann.
Í þeim fjórða nær Grindavík svo góðu áhlaupi strax í byrjun og eru kringum 10 stigum yfir allan seinni hluta lokafjórðungsins. Niðurstaðan að lokum nokkuð öruggur sigur þeirra, 94-106.
Stigahæstir fyrir Þór í leiknum voru Jacoby Ross með 28 stig og Djordje Dzeletovic með 20 stig.
Fyrir Grindavík var stigahæstur Khalil Shabazz með 31 stig og DeAndre Kane var honum næstur með 28 stig.



