spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaGrindvíkingar sterkari á lokasprettinum í Smáranum

Grindvíkingar sterkari á lokasprettinum í Smáranum

Grindavík hafði betur gegn Haukum í Smáranum í kvöld í 20. umferð Subway deildar kvenna, 83-79. Leikurinn var sá annar sem liðin léku í nýskiptum A og B hluta deildarinnar, en þau áttu ólíku gengi að fagna í fyrsta leiknum, þar sem Grindavík tapaði fyrir Njarðvík og Haukar lögðu Stjörnuna.

Leikurinn var í járnum á upphafsmínútunum og munaði aðeins stigi á liðunum eftir fyrsta fjórðung, 15-14. Undir lok hálfleiksins ná heimakonur þó að vera skrefinu á undan og leiða með 8 stigum þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 43-35.

Í upphafi seinni hálfleiksins gerir Grindavík vel að halda forskoti sínu og leiða þær með 5-10 sigum allan þriðja fjórðunginn, þar sem munurinn fyrir lokaleikhlutann helst í þeim sama, 8 stigum, 64-56. Haukar eiga svo fína atlögu að forystu Grindavíkur á lokamínútunum, þar sem þær ná að jafna þegar innan við fimm mínútur eru eftir. Með öguðum varnarleik nær Grindavík þó að lokum að vera nokkrum stigum á undan þegar innan við mínúta er eftir, 80-77. Haukar ná svo að búa sér til lokasókn þegar 7 sekúndur eru eftir og þær eru 2 stigum undir, 81-79. Þar fara þær nokkuð illa að ráði sínu, tapa boltanum og Grindavík nær að sigla sterkum sigur í höfn 83-79.

Atkvæðamest fyrir Grindavík í leiknum var Eve Braslis með 26 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Fyrir Hauka var það Keira Robinson sem dró vagninn með 21 stigum, 8 fráköstum, 6 stoðsendingum og 5 stolnum boltum.

Þar sem það eru 5 lið í hvorum hluta deildarinnar þarf eitt lið að hvíla í hverri umferð, en í þeirri næstu er komið að Grindavík. Næsti leikur Hauka mun því vera komandi miðvikudag 14. febrúar gegn Keflavík í Ólafssal á meðan að Grindavík leikur ekki næst fyrr en 21. febrúar gegn Keflavík í Blue höllinni.

Tölfræði leiks

Staðan í deildinni

Fréttir
- Auglýsing -