spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar sterkari á lokasprettinum gegn KR

Grindvíkingar sterkari á lokasprettinum gegn KR

Heimamenn í Grindavík unnu frekar nauman sigur á KR-ingum í kvöld. Lokatölur urðu 89-81.

Gestirnir byrjuðu af krafti og buðu upp á flott tilþrif í byrjun leiks; sóknarleikurinn var frískur en hins vegar var varnarleikur Grindvíkinga ekki neitt sérstakur. KR skoraði 30 stig í 1. leikhluta og það fannst þjálfara liðsins, Jóhanni Þór Ólafssyni, aðeins of mikið af því góða, þótt hans menn hafi gert 27 stig.

Eftir þennan 1. leikhluta varð leikurinn í betra jafnvægi og varnarleikur beggja liða braggaðist og baráttan tók kipp hjá báðum liðum.

Jafnræði ríkti áfram en heimamenn voru skrefinu á undan allan síðari hálfleikinn, en þeim tókst illa að hrista af sér gestina sem hungraði í sigur eftir erfiða tíð.

Lokakaflinn var fjörugur og tilþrifamikill, en gestunum tókst þó aldrei að ógna sigri heimamanna af neinni alvöru þrátt fyrir að hafa lagt sig alla fram.

Grindvíkingar eru komnir á ansi gott skrið og hlutirnir eru farnir að líta vel út hjá liðinu; meiri liðsbragur er á Grindvíkingum nú en oft áður. Liðið er vel mannað og á að geta náð langt. Damier Eric Pitts er mikil búbót fyrir Grindvíkinga og hann var virkilega góður í kvöld; stýrði leik liðsins vel og þá getur kappinn svo sannarlega látið finna vel fyrir sér í sóknarleiknum. Bragi Guðmundsson var mjög góður og hikar aldrei. Kristófer Breki Gylfason var sterkur, var að skjóta vel og lék frábærlega í vörninni. Óli Óli steig upp þegar þurfti.

Hjá KR var gaman að sjá Matthías Orra Sigurðarson aftur á fjölunum – en þetta var hans annar leikur eftir endurkomuna; nóg eftir á tankinum hjá Matta og hann á bara eftir að verða betri og betri. EC Matthews er sterkur sóknarleikmaður sem erfitt er að stoppa, og þá er allt krökkt af verulega efnilegum ungum leikmönnum hjá liðinu; ef vel er haldið á spöðunum hjá KR verður þetta lið ansi sterkt eftir ekki svo langan tíma.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -