spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar örugglega áfram eftir sigur í Höllinni (Umfjöllun)

Grindvíkingar örugglega áfram eftir sigur í Höllinni (Umfjöllun)

00:52
{mosimage}

(Guðlaugur Eyjólfsson var stigahæstur Grindvíkinga í Höllinni í kvöld)

Það er ólík staða hjá liðunum sem áttust við í Laugardalshöllinni í kvöld í Subwaybikarnum. Grindvíkingar mættu með fullmannað og sterkt lið sem er í 2.sæti í efstu deild meðan Ármenningar eru í næst neðsta sæti í 1.deild og voru þeir ansi fámannaðir og söknuðu margra leikmanna meðal annars Steinars Kaldal, Ásgeirs Hlöðverssonar og Sæmundar Oddssonar.

Leikurinn byrjaði frekar rólega og skiptust liðin á að skora en um miðjan 1.leikhluta náðu Grindvíkingar góðri keyrslu og endaði leikhlutinn 27-11 fyrir Grindavík og leit allt út fyrir að þeir myndu stinga auðveldlega af. Ármenningar gáfust samt ekki upp og með þremur þriggja stiga körfum frá Ármanni Vilbergssyni (bróður Pál Axels Vilbergssonar) og einni þriggja frá Níelsi Dungal náðu þeir að minnka muninn og leit út fyrir að þetta gæti orðið spennandi leikur. En þá sögðu Grindvíkingar hingað og ekki lengra og byrjuðu að raða niður þriggja stiga körfum og endaði leikhlutinn 38-57. Vert er að nefna að Grindavík skoraði alls 18 þriggja stiga körfur í leiknum.

Í þriðja leikhluta keyrðu Grindvíkingar áfram meðan allur kraftur var horfinn úr Ármenningum. Grindvíkingar unnu leikhlutann 32-9 og var aðeins formsatriði að klára fjórða leikhluta og endaði leikurinn 114-62 fyrir Grindavík.

Ómögulegt er að nefna besta leikmann Grindavíkur þar sem leiktíminn dreifðist vel og allir náðu að setja svip sinn á leikinn. Fimm leikmenn skoruðu 10 stig eða meira, Guðlaugur Eyjólfsson með 28 stig, Páll Axel Vilbergsson með 19 stig (5 fráköst og 3/4 í þriggja), Davíð Páll Hermannsson með 15 stig (5 fráköst og 5 stoðsendingar), Björn Steinar Brynjólfsson með 14 stig (4/6 í þriggja) og Helgi Jónas Guðfinnsson með 10 stig (6 stoðsendingar). Einnig stjórnaði Arnar Freyr Jónsson leiknum vel og var með 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Grindavíkurliðið var einnig með mjög góða skotnýtingu í heildina, 60,5% í tveggja stiga og 52,9% í þriggja stiga.

Hjá Ármann átti Níels Dungal ágætisleik með 17 stig og 7 fráköst. Gunnlaugur Elsuson skoraði einnig 17 stig (8 fráköst) en þurfti ansi mörg skot til að skora þessi stig. Næstur kom Ármann Vilbergsson með 9 stig (3/4 í þriggja).

Bryndís Gunnlaugsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -