spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar með sterkan sigur

Grindvíkingar með sterkan sigur

 Grindvíkingar sem eru á bullandi siglingu þessa dagana tóku á móti Keflvíkingum í Dominosdeild karla í kvöld í nokkuð kaflaskiptum leik. Svo fór að Grindvíkingar höfðu sigur að lokum 94:83 og þrátt fyrir stór sigur Grindvíkinga þá myndaðist nokkur spenna á síðustu sekúndum leiksins.
 Grindvíkingar gátu með 15 stiga sigri í kvöld átt betri möguleika á öðru sæti deildarinnar, að því gefnu að þeir myndu enda með sama stigafjölda og Keflvíkingar þegar uppi er staðið.  Með 5 sekúndur eftir af klukkunni gátu hinsvegar Grindvíkingar best náð að jafna þann 14 stiga sigur sem Keflvíkingar skelltu á Grindvíkinga í fyrri umferðinni.  Þetta tókst þeim gulu ekki en sigruðu vissulega leikinn. 
 
Leikurinn sjálfur var kaflaskiptur að miklu leyti. Grindvíkingar virtust hafa undirtökin í leiknum að mestu en Keflvíkingar á seiglunni voru aldrei langt undan og aðeins 2 stig sem skildu liðin í hálfleik, 44:42.  Í þriðja leikhluta áttu Keflvíkingar gott áhlaup og komust yfir í leiknum þó ekki meira en 4 stigum. Heimamenn duttu hinsvegar fljótlega aftur í gírinn og náðu forystunni.  Sigurður Gunnarsson var enn og aftur búin að koma sér í villu vandræði og spilaði lítið í þriðja leikhluta og megnið af þeim fjórða.  Margir hefðu haldið að það yrði þá veisluhöld í teignum hjá Michael Craion en Ólafur Ólafsson sem ekki alls fyrir löngu var að nudda á sér geirvörturnar sem áhorfandi í DHL höllinni tók vel á honum Craion kallinum og náði að hægja nokkuð á honum.  Ég gerist ekki svo grófur að segja að hann hafi stoppað hann því Craion setti 31 stig og tók 18 fráköst í leiknum. 
 
En þetta var baráttu sigur hjá þeim Grindvíkingum og óhætt að segja verðskuldaður.  Keflvíkingar voru svo sannarlega með laskað lið þar sem að Gunnar Ólafsson var í borgaralegum klæðnaði á bekknum enn að jafna sig eftir ökkla tognun frá því í leiknum gegn Haukum. Kappinn hafði lofað í viðtali við Karfan.is að hann yrði með….en sveik það og við fyrirgefum honum það alveg. Svo var það Magnús Þór Gunnarsson sem margir héldu að væri í banni en kappinn lá heima fyrir í flensu og gat því ekki leikið með. 
 
Þrátt fyrir þetta stóðu Keflvíkingar ágætlega í þeim Grindvíkingum á þeirra heimavelli.  Undirritaður verður þó að lýsa vonbrigðum sínum á þeim yngri leikmönnum Keflavíkur sem fyrir leik hefðu átt að vita að með þessum meiðslum í liðinu yrði góður möguleiki fyrir þá til að sanna sig.  Það gerðu þeir hinsvegar ekki og virtust alls ekki tilbúnir í verkefnið. Koma tímar koma ráð. 
 
Sem fyrr segir Grindvíkingar á bullandi siglingu og í raun aðeins ein spurning með þá, eru þeir jafnvel að toppa aðeins of fljótt. Liðið virðist vera að virka gríðarlega vel sóknar sem varnarlega og bullandi sjálfstraust í hverju horni. Sigurður Þorsteinsson þvertók fyrir það að liðið væri búið að toppa og sagði þá enn vera að fínessera sinn leik.  
 
Texti: SbS
Mynd: SbS
 
Fréttir
- Auglýsing -