spot_img
HomeFréttirGrindvíkingar með seiglu sigur

Grindvíkingar með seiglu sigur

 Það voru Grindvíkingar sem fóru með sigur af hólmi í kvöld í Röstinni þegar Njarðvíkingar mættu í heimsókn í Dominosdeild karla.  Fyrir leik voru liðin jöfn að stigum og von var á hörku leik. Það fór eftir og á tímum virtist ætla að sjóða uppúr.  En allt fór þetta nú nokkuð skynsamlega fram og 79:75 sigur heimamann leit dagsins ljós eftir að hafa verið undir megnið að seinni hálfleik. 
Það var ekki beint hægt að tala um leifturárásir frá nágrönnunum í kvöld því allt var í járnum nánast allan tímann. Mér fróðari menn gætu eflaust fundið góðar myndlíkingar á þetta en ég læt duga að tala um þetta eins og þetta var og eins og einn góður sagði eitt sinn í beinni útsendingu í sjónvarpi; þarna mættust stálin tvö….. 
 
Það voru Grindvíkingar sem voru sterkari aðilinn á lokasprettinum og það gerði útslagið. Þetta leit allt bara nokkuð vel út hjá Njarðvíkingum, þeir leiddu nánast allan seinni hálfleik eða þangað til að fjórar mínútur voru eftir. Þó virtist sóknarleikur liðsins vera fastur í handbremsu, boltanum klappað allt of mikið og endaði það með slöku skoti fyrir utan í stað þess að halda áfram því sem hafði verið að virka fram að því.  Það verður hinsvegar ekki tekið af þeim Grindvíkingum að þeir unnu svo sannarlega vel fyrir þessu með sterkum varnarleik á síðustu metrunum en þeir voru heilt yfir að spila illa í þessum leik og held ég að engin komi til með að mótmæla því. 
 
 
Njarðvík leiddi með 3 stigum eftir 1. leikhlua 20-23 en Jóhann Árni endaði fjórðunginn með flautuþrist talsvert fyrir utan 3-stiga línuna spjaldið oní… glæsileg karfa.
Sami barningur hélt áfram í 2. leikhluta en Grindvíkingar klóruðu þó frekar í bakkann og voru yfir þegar skammt lifði fyrri hálfleiks en Njarðvík náði að jafna svo grannarnir löbbuðu hönd í hönd í kaffipásuna með 41 punkt á töflunni.
 
Dómarar leiksins sem áttu dapran dag, virtust vera missa öll tök á leiknum í 3. leikhluta og hélt undirritaður um tíma að þjálfarar liðanna væru í keppni um hvor fengi fyrst tæknivillu! Grindvíkingar höfðu betur í þeirri baráttu og fær aðstoðarþjálfari Grindavíkur, Jóhann Ólafsson, heiðurinn af henni. Njarðvíkingar settu bæði víti niður og svo þrist í kjölfarið og þegar skammt var eftir af þessum næstsíðasta leikhluta sást mesti munurinn sem sást allt kvöldið eða 10 stig. Á þeim tímapunkti virtist dæmið ætla snúast um hvort liðið ætti næsta áhlaup því ef Njarðvík hefði náð að halda áfram á svipaðri braut þá hefðu úrslit leiksins jafnvel og líklega orðið önnur. En gulir náðu aðeins að rétta úr kútnum og héldu til lokaorrystunnar 6 stigum undir. Munurinn hélst í þessum 4-8 stigum allt þar til Grindvíkingar náðu glæsilegu áhlaupi eins og áður sagði og lönduðu sigrinum.
 
 
 
 
Grindvíkingar fundu greinilega amerísku fjölina að nýju en Lewis Clinch er greinilega með´etta! Frábær leikmaður sem á bara eftir að vaxa og dafna. Hann endaði með 26 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Jóhann Árni var fyrrum sveitungum sínum erfiður ljár í þúfu en hann endaði með 19 stig og 7 fráköst. Siggi Þorsteins var sá síðasti til að skríða yfir hinn fræga 10-stiga múr og tók auk 12 stiganna, 13 fráköst og varði 3 skot, flott tvenna og leikur hjá vestfirska tröllinu. Ómar Örn Sævars verður sífellt flottari og berst alltaf eins og ljón en baráttan skilaði honum næstum því tvennu í kvöld (8 stig og 10 fráköst). Einn af ungu Grindvíkingunum, Jón Axel Guðmundsson var einnig flottur með 8 stig og 5 fráköst.
 
Njarðvíkingar eru með flott lið sem verður pottþétt í baráttunni í vetur. Alger unun að fylgjast með Elvari Má Friðrikssyni en gaman og fróðlegt yrði að taka tímann á honum í 60m. hlaupi! Frábær boltatækni, gott skot og stjórnar leiknum vel og er einfaldlega orðinn mjög góður leikmaður og er samt bara rétt skriðinn yfir fermingu….. Elvar var ekki langt frá hinni eftirsóttu þrennu í kvöld (12 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar). Nigel Moore er góður Kani sem skilar alltaf sínu en í kvöld setti hann 19 stig og tók 9 fráköst. Logi Gunnars hefur eflaust oft verið sáttari við sjálfan sig en eftir leik eins og í kvöld en hann hitti fremur illa og var að mínu mati oft að taka ansi erfið skot. Logi setti þó 15 stig. Ólafur Jónsson setti 10 stig og hitti 2/4 3-stiga skotum sínum og hefði eflaust mátt skjóta meira þannig m.v. þá nýtingu. Aðrir gerðu minna.
 
 
Njarðvíkingar voru að dreyfa boltanum hratt og vel í sókninni framan af leik og eftir 20 mínútna leik höfðu 10 leikmenn hjá þeim grænklæddu skorað. Svona vilja þeir grænklæddu spila og hefðu þeir haldið þessum leik til streytu út 40 mínúturnar hefðu loka úrslit þessa leiks getað orðið önnur.  Grindvíkingar áttu sín móment í þessum leik en sem fyrr segir voru þeir ekki að spila neitt gríðarlega vel. Þeir voru grimmir í sóknarfráköstum (16 í heild) og það hjálpaði þeim vissulega að leggja Njarðvíkinga að lokum því þeir fengu hvað eftir annað sín tvö tækifæri í sókninni.  En vissulega gríðarlega stór karakter hjá þessu Grindavíkurliði að landa sigri í leik sem þessum. 
 
Njarðvíkingar hinsvegar þurfa að bíta í það súra epli að af þeim 3 “toppliðum” sem þeir hafa spilað við hingað til (KEF, GRI, KR) hafa þeir tapað þeim öllum.  Grindvíkingar hinsvegar geta þakkað fyrir stigin tvö og ætti sigurinn að vera gott veganesti fyrir þá í næstu leiki. 
 
Sem fyrr sagði þá virtist ætla að sjóða uppúr á tímum og leikmenn liðanna eitthvað “tens”  í leiknum.  Grindvíkingar settu allt of mikið púður í það að tuða í dómurum leiksins sem þeir hefðu vissulega getað nýtt sér betur á öðrum vígstöðum.  Dómarar leiksins gerðu jú vissulega sín mistök í leiknum en fullyrt verður að það hafði ekki áhrif á loka úrslit leiksins. 
 
Texti: SDB
 
 
Fréttir
- Auglýsing -